Karen Ósk gefur út lagið Haustið

Karen Ósk gefur út lagið Haustið

Söngkonan Karen Ósk Ingadóttir frá Akureyri sendi í vikunni frá sér sitt fyrsta lag. Lagið heitir Haustið og Karen fékk tónlistarmanninn Friðrik Dór Jónsson til þess að syngja með sér. Hlustaðu á lagið Haustið í spilaranum hér að neðan.

Karen Ósk er tvítug og er stúdent úr Menntaskólanum á Akureyri. Hún segist hafa verið raulandi frá því að hún muni eftir sér og að hún hafi alltaf haft mikinn áhuga á tónlist.

„Ég spila á gítar og kenndi mér sjálf á píanó fyrir einhverjum árum. Ég hef líka tekið þátt í einhverjum söngkeppnum en ég er hins vegar virkilega feimin og kvíðin og hef alltof oft látið það halda aftur að mér, hef aldrei þorað að láta neitt verða úr söngnum að einhverri alvöru fyrr en núna,“ segir Karen í spjalli við Kaffið.is.

Hún segir að faðir hennar hafi hvatt hana til þess að syngja meira og gefið henni sjálfstraust til þess að leyfa öðrum að heyra rödd hennar. Hann gaf henni stúdíó tíma með Friðriki Dór í jólagjöf á síðasta ári.

Hugmyndin hjá pabba var að ég myndi kannski taka eitthvað cover og að ég fengi að prófa að syngja í stúdíói, ekki grunaði okkur að það myndi leiða okkur hingað en það vildi svo til að Frikki var með lag í huga sem hann hafði samið fyrir einhverju síðan sem varð að því lagi sem Haustið er í dag og ég gæti ekki verið sáttari með útkomuna og að vera loksins að taka þetta stóra skref út fyrir þægindarammann,“ segir Karen.

Hún segir að hún sé hvergi nærri hætt og að næstu verkefni séu í bígerð. „Þetta er vonandi bara byrjunin á öðrum spennandi kafla í mínu lífi.“

Hlustaðu á Haustið:

Sambíó

UMMÆLI