NTC

Karen Birna Þorvaldsdóttir varði doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindumMynd: Axel Darri Þórhallsson

Karen Birna Þorvaldsdóttir varði doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum

Í gær varði Karen Birna Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri. Þetta var fyrsta doktorsvörnin við Háskólann á Akureyri.

„Karen Birna Þorvaldsdóttir, nýdoktor í heilbrigðisvísindum – til hamingju með áfangann. Við erum ofboðslega stolt af þér. Það var svo sannarlega tilefni til að gleðjast í gær þegar fyrsta doktorsvörnin við Háskólann á Akureyri fór fram. Karen Birna varði doktorsritgerð sína með glæsibrag,“ segir á Facebook síðu Háskólans á Akureyri.

 Doktorsritgerð Karenar Birnu ber heitið Að skilja og mæla hindranir þess að leita sér hjálpar eftir áfall: Þróun á mælitæki með blönduðum aðferðum. Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Sigríðar Halldórsdóttur, prófessors við Háskólann á Akureyri. Auk hennar voru í doktorsnefnd Denise Saint Arnault, prófessor við University of Michigan í Bandaríkjunum, Rhonda M. Johnson, prófessor við University of Alaska Anchorage í Bandaríkjunum, og Sigrún Sigurðardóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.

Andmælendur voru Stefanía Ægisdóttir, prófessor í sálfræði við Ball State University í Bandaríkjunum, og Maria Wemrell, dósent í lýðheilsuvísindum við Lunds universitet í Svíþjóð.

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms, og Kristján Þór Magnússon, settur forseti Heilbrigðis-, viðskipta-, og raunvísindasviðs, stýrðu athöfninni en eftir hana var boðið til móttöku með léttum veitingum.

Um doktorsefnið

Karen Birna Þorvaldsdóttir er fædd árið 1993 á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2013, B.A. gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017 og M.S. gráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi frá sama skóla árið 2019. Karen Birna hóf doktorsnám í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri árið 2019. Hún tók hluta af doktorsnáminu við University of Michigan í Bandaríkjunum sem Fulbright styrkþegi og dvaldi þar við Michigan Mixed Methods rannsóknastofnunina. Meðfram náminu hefur Karen Birna kennt við Háskólann á Akureyri sem stundakennari, gegnt stöðu formanns Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi og setið í stjórn Bjarmahlíðar – miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.

Doktorsverkefnið var styrkt af Jafnréttissjóði Íslands, Fulbright stofnuninni, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og University of Michigan Institute for Research on Women and Gender.

Ágrip

Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að þróa íslenskt mælitæki sem metur hindranir þess að leita sér hjálpar eftir áfall. Nánar tiltekið að þýða og staðfæra Barriers to Help-Seeking for Trauma Scale (BHS-TR) og kanna próffræðilega eiginleika íslenskrar útgáfu BHS-TR. Blandaðar aðferðir voru notaðar í ferli sem fól í sér þýðingu–bakþýðingu, rýni sérfræðihóps, forprófun með ítarviðtölum, áreiðanleika- og réttmætisathugun og samþættingu eigindlegra og megindlegra gagna.

Þátttakendur voru alls 154 íslenskar konur sem höfðu verið beittar ofbeldi í nánu sambandi, þar af 17 í eigindlega hlutanum og 137 í megindlega hlutanum.

Heildarniðurstöður verkefnisins benda til þess að íslenska BHS-TR sé áreiðanlegt, réttmætt og áfallamiðað mælitæki. Þar að auki kom í ljós að meðal helstu hindrana sem þátttakendur upplifðu voru skömm, fjárhagsáhyggjur, vilja vernda sig frá því að endurupplifa áfallið og viðhorf tengd því að það sé veikleikamerki að leita sér hjálpar. BHS-TR mælitækið, sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, er framlag til rannsókna og þjónustu við þolendur ofbeldis og áfalla hér á landi. Það getur veitt mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nýta til þess að takmarka hindranir og auðvelda þolendum að leita sér hjálpar.

Sambíó

UMMÆLI