Í nótt mældist eins stigs frost á Akureyri. Það er það kaldasta sem hefur mælst svo seint í júní frá því árið 1978 þegar frysti 23. júní. Þetta kemur fram í færslu Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, á Facebook.
„Klálega einn mesti kuldi af þessum toga í áraraðir, en samanburður vissulega erfiður þar sem mest er af köldum dögum í blábyrjun mánaðarins. Kortið frá Veðurstofunn sýnir hita í 850 hPa fletium og þykktina sem var á miðnætti norðanlands um 5210 m. Þetta er óvenjulega kaldur loftmassi yfir landinu sama hvaða sjónarhorni er beitt. Hvenær svo kalt var síðast veit ég ekki, en þykktin er áþekk og í frægu N-áhlaupi sem gerði 17. júní 1959,“ skrifar Einar á Facebook síðu sinni.
Einar var spurður að því hvort þetta væri ávísun á kalt sumar á vef mbl.is í dag en hann sagði að svo þyrfti ekkert endilega að vera.
„Í sjálfu sér ekki. Við þekkjum sumarveðráttuna og hún er breytileg, það koma kaflar með þessu og síðan kaflar með hinu veðrinu. Það að sumarið fari illa af stað er ekki vísbending um að sumarið fari illa. Það kom tólf daga kafli þar sem var mjög hlýtt, síðan rigndi loksins sunnan- og vestanlands og þá var kærkomið að fá bleytuna. Síðan erum við núna í þessari köldu báru,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Samkvæmt veðurspá næstu daga verður áfram heldur kalt. Hitinn fer ekki upp fyrir tíu gráður í þessari viku samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.
UMMÆLI