Gestum hefur fjölgað jafnt og þétt í húsdýragarðinum Daladýrð í Fnjóskadal frá því að hann opnaði árið 2017. Síðustu tvö ár hafa eigendurnir lagt mikið í að uppfæra og stækka aðstöðuna og hafa sannarlega haft erindi sem erfiði. Að sögn Guðbergs Egils Eyjólfssonar, eiganda Daladýrðar, hefur velta fyrirtækisins tvöfaldast milli ára, bæði frá 2023 til 2024 og svo aftur frá 2024 til 2025.

Vissulega hefur gestum fjölgað á þessu tímabili, en Guðbergur segir það ekki útskýra veltuaukninguna, að minnsta kosti ekki fyllilega. Hann segir nýja kaffihúsið sem hann opnaði með sambýliskonu sinni Hrefnu Björk Sigurðardóttur, Café Animal, hafa skipt þar mestu máli. Kaffihúsið hefur gert þeim kleift að stórauka veltu fyrirtækisins án þess að þurfa að hækka miðagjaldið, sem er 1.700 krónur. Beggi (Guðbergur), bendir á að það sé að jafnaði ódýrara en bíómiði.
„Ég veit um mann sem þú átt að fara að deita“
Haustið 2023 hófu Guðbergur og Hrefna sambúð í Brúnagerði. Hrefna er frá Stokkseyri, en hafði búið í Hafnarfirði um nokkurt skeið áður en hún flutti norður. Hún kynnist Begga í gegnum systur sína. Hrefna segir systur sína hafa sagt einn daginn við sig: „Heyrðu, ég veit um mann sem þú átt að fara að deita í fjarsambandi.“ Hrefnu leist ágætlega á kauða, svo hún og Beggi hófu samskipti. Begga leist vel á Hrefnu sömuleiðis: „Ég sagðist alveg hafa heyrt verri hugmyndir en þetta,“ segir hann og glottir.
Þegar að því kom að flytja inn saman lá það í augum uppi að það væri Hrefna sem kæmi norður í sveitasæluna. Þau eiga það sameiginlegt að vera miklir dýraunnendur, svo það var óneitanlega rómantísk tilhugsun að búa saman í sveitinni og reka dýragarð. Beggi er áhugasamur um húsdýr en Hrefna er meira fyrir smádýrin, svo þau vinna vel saman. Þar að auki sáu þau tækifæri. Hrefna hafði nefnilega unnið á kaffihúsi í Hafnarfirði og haft mikinn unað af, en Guðbergur hafði þegar hugsað sér að hefja einhvers konar veitingasölu í Daladýrð. Það var því sjálfsagt skref að Hrefna kæmi norður og þau opnuðu saman kaffihús.
Heimilisleg og kósý stemming
Café Animal er mjög sérstakt kaffihús. Að setjast þar niður með bolla líkist því frekar að koma í kaffiboð á sveitaheimili en að vera viðskiptavinur á kaffihúsi. Húsgögn og skrautmunir eru ýmist fengnir af nytjamarkaðinum Norðurhjálp á Akureyri eða grafnir upp úr geymslum og skemmum í sveitinni. Þegar maður sest niður líður svo ekki á löngu áður en maður er kominn með kúrufélaga í kjöltuna, því á Café Animal búa bæði hundar og kettir.

Hrefna segir það skipta hana miklu máli að skapa einmitt þessa heimilislegu stemmingu á kaffihúsinu. Bakkelsið bakar hún sjálf eftir uppskriftum sem hún hefur frá langömmu sinni og meira að segja sultur og sýróp eru heimagerð. Margir hugsa sér kannski að húsdýragarðar höfði aðallega til barna. Beggi segir það vera algjöran misskilning, en 70% gesta í Daladýrð eru fullorðið fólk og margt þeirra kemur barnlaust í heimsókn. Að sögn hans er kaffihúsið og heimilislega stemmingin þar stór þáttur í því að gera Daladýrð að ákjósanlegum áfangastað ekki aðeins fyrir börn og fjölskyldufólk, heldur alla.

Eitthvað fyrir alla
Líkt og áður segir hefur gestum í Daladýrð fjölgað umtalsvert á síðustu misserum. Beggi segir þetta að miklu leyti stafa af því að staðurinn sé loks kominn á kortið hjá erlendum ferðamönnum. Áður fyrr voru erlendir gestir Daladýrðar fyrst og fremst þeir sem rákust á staðinn á Google Maps eða sáu auglýsingabækling þegar þeir voru þegar komnir til Íslands og áttu leið hjá. Nýlega hafa hins vegar komið til hans sífellt fleiri gestir sem höfðu áætlað heimsókn í Daladýrð áður en þeir lögðu af stað frá heimalandinu. Beggi segist ekki viss um hvað nákvæmlega hafi ollið þessari breytingu. Hann hefur ekki lagst í miklar auglýsingaherferðir, svo líklega hefur orðspor garðsins einfaldlega tekið þennan tíma að festa sig í sessi.
Hvað Íslendinga varðar segist Beggi líka hafa tekið eftir aukningu, þó hún sé aðeins minni. Yfir veturinn segir hann að suma daga séu íslenskir gestir fleiri en erlendir, sérstaklega um helgar. Hann og Hrefna segjast vera nú komin með þónokkra fastagesti að sunnan og að fyrir sumum séu þau kominn á lista yfir það sem ávallt skal gera þegar komið er til Akureyrar: Fá sér ís í Brynju, kíkja í Jólahúsið, kíkja í Daladýrð.

Dýrin sem hægt er að sjá í Daladýrð eru nefnilega ekki aðeins spennandi fyrir ferðamenn, heldur líka fyrir Íslendinga. Þar er að finna ýmis sjaldgæf afbrigði íslenskra húsdýra, til að mynda ferhyrndar rollur (sjá mynd að ofan), forystufé og sægrá kvíga (sjá mynd að nepðan), svo eitthvað sé nefnt.

Hér að neðan eru myndir sem fréttaritari tók í heimsókn til Daladýrðar á dögunum. Opnunartími Daladýrðar á veturna er frá 11 til 17 alla daga. Á sumrin er opið til 18.






