KA vann baráttuna um bæinn í ótrúlegum leik

KA vann baráttuna um bæinn í ótrúlegum leik

Það var rosaleg stemning í KA-heimilinu á Akureyri í kvöld þegar KA og Akureyri mættust í nágrannaslag í fyrstu umferð Olís deildar karla í handbolta.

KA menn byrjuðu leikinn betur og leiddu nánast allan fyrri hálfleikinn. Staðan var 13-9 þegar Leonid Mykhailiutenko leikmaður Akureyrar fékk beint rautt spjald fyrir brot á Heimi Árnasyni.

KA leiddi 16-11 í hálfleik. Akureyringar komu sterkari til leiks í síðari hálfleik en KA menn héldu forskotinu. Á 46. mínútu tók við ótrúleg atburðarrás en á 8 mínútna kafla náðu Akureyringar að jafna í 25-25 úr stöðunni 23-17.

Lokamínútur leiksins voru æsispennandi. Þegar ein mínúta var eftir af leiknum var staðan 27-27. Brynjar Hólm Grétarsson, leikmaður Akureyrar fékk þá dæmda á sig línu og í kjölfarið 2. mínútna brottvísun.

Sigþór Gunnar Jónsson tryggði KA mönnum sigurinn með marki þegar um þrjátíu sekúndur voru eftir af leiknum. Akureyringar náðu ekki að nýta síðustu sókn sína í leiknum.
Magnaður sigur KA í ótrúlegum leik niðurstaðan. KA menn komnir á blað í Olís deildinni, tryggja sér gífurlega mikilvæg stig og montréttinn.
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó