Það var mögnuð stemning í KA heimilinu í dag þegar KA/Þór fékk Val í heimsókn í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. Þetta er í fyrsta sinn sem KA/Þór spila til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en stelpurnar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn fyrr í vetur.
Leikurinn var stórskemmtilegur en KA/Þór vann að lokum glæsilegan 24:21 sigur. Matea Lonac var frábær í markinu hjá KA/Þór. Rut Arnfjörð Jónsdóttir var markahæst í liði KA/Þór með átta mörk og þá skoraði Ásdís Guðmundsdóttir sex mörk.
KA/Þór geta tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil á sunnudaginn þegar liðin mætast aftur á Hlíðarenda. Vinna þarf tvo leiki til að tryggja titilinn. Hópferð suður fyrir stuðningsfólk liðsins verður kynnt á morgun.