Forsvarsmenn KA/Þór hafa lýst yfir furðu sinni með vinnubrögð áfrýjunardómstóls HSÍ og skrifstofu HSÍ eftir að ákveðið var að leikur Stjörnunnar og KA/Þór í Olís deild kvenna í handbolta yrði leikinn aftur.
Sjá einnig: Leikur KA/Þór og Stjörnunnar verður spilaður aftur
„Forsvarsmönnum KA/Þór var aldrei tilkynnt um að Stjarnan hefði áfrýjað dómi dómstóls HSÍ sem féll í málinu þann 1. mars 2021 og hvað þá heldur að áfrýjunardómstóll HSÍ væri að taka málið fyrir. Barst KA/Þór fyrst vitneskja um málið eftir að dómur var fallinn. Augljóst er að ekkert félag innan íþróttahreyfingarinnar getur búið við það að fá ekki að taka til varnar í máli sem að því snýr. Rétt er að benda á að vegna málsmeðferðarreglna HSÍ er KA/Þór varnaraðili í málinu, þrátt fyrir að Stjarnan kæri framkvæmd leiksins, framkvæmd sem sama félag bar ábyrgð á,“ segir í tilkynningu.
KA/Þór hefur nú þegar óskað eftir því að dómur áfrýjunardómstóls HSÍ verði ógiltur eða endurupptekinn. Liggur í augum uppi að mati KA/Þór að þeir dómarar áfrýjunardómstólsins sem komist hafa niðurstöðu og opinberað hana, án þess að gefa KA/Þór færi á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, teljist vanhæfir til að fjalla um málið að nýju. Er KA/Þór enn fremur reiðubúið að fara með málið lengra enda eiga öll félög innan íþróttahreyfingarinnar að standa jöfnum fæti fyrir dómstólum sinna sérsambanda.
Ljóst er að endanleg niðurstaða þessa máls mun hafa mikil áhrif á lokaniðurstöðu Olís-deildar kvenna. Það er krafa KA/Þórs að framhald málsins verði unnið fljótt og örugglega þannig að það komi ekki til með að hafa áhrif á áðurnefnda lokaniðurstöðu mótsins eða önnur og bein áhrif á úrslitakeppnina í Olís-deild kvenna.
UMMÆLI