KA og Akureyri mætast í baráttunni um bæinn á morgun

Það má reikna með látum annað kvöld þegar KA og Akureyri mætast í handboltaleik í KA-heimilinu. Þetta er í fyrsta skipti sem liðin mætast eftir að KA sleit sig úr samstarfi Þórs og KA um Akureyri handboltafélag fyrr á þessu ári.

Liðin hafa bæði farið vel af stað í Grill66 deild karla í handbolta og unnið alla sína leiki. Lið Akureyrar hefur unnið Ungmennafélög Vals og ÍBV og Míluna frá Selfossi á meðan KA hefur unnið Míluna og Ungmennafélög ÍBV og Hauka.

Hafþór Már Vignisson er markahæstur í liði Akureyrar með 21 mark í þremur leikjum. Brynjar Hólm Grétarsson er næst markahæstur með 18 mörk. Í liði KA eru þeir Sigþór Árni Heimisson og Andri Snær Stefánsson markahæstir með 17 mörk.

Það hefur verið frábær stemning á leikjum liðanna í vetur en það má búast við því að hún nái hámarki í KA heimilinu á morgun. Þrátt fyrir að Akureyri U og Hamrarnir hafi mæst í 1. deildinni undanfarin ár mætti segja að þetta væri í fyrsta skipti í 11 ár sem tvö handboltalið mætast í baráttu um bæinn, eða síðan KA og Þór sameinuðust undir merkjum Akureyrar árið 2006.

Leikurinn hefst klukkan 19:00 í KA heimilinu. Húsið opnar klukkutíma áður en leikurinn hefst og er aðgangseyrir 1000 krónur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó