KA menn unnu Aftureldingu í tvígang

Úr viðureign liðanna um helgina

KA og Afturelding mættust í tvígang í Mizuno deild karla í blaki um helgina í KA heimilinu. KA menn höfðu betur í báðum viðureignum.

Aftureldingarmenn byrjuðu fyrri leikinn töluvert betur og leiddu alla fyrstu hrinuna og lauk henni með 20-25 sigri þeirra.

Annað var uppi á teningnum í annarri og þriðju hrinu þar sem KA menn byrjuðu af krafti og unnu sér fljótt upp þægilegt forskot. Það létu þeir ekki af hendi og lauk hrinunum 25-17 og 25-15 fyrir KA.

Fjórða hrinan var þó allt önnur á að horfa. Bæði lið virtust staðráðin í að vinna hana og var hún jöfn alveg fram að stöðunni 16-16. Þá skoruðu gestirnir fjögur stig í röð og virtust ætla að gera út um hrinuna. Allt kom þó fyrir ekki þar sem KA menn skoruðu sex stig í röð í stöðunni 19-22 fyrir Aftureldingu og unnu hrinuna því 25-22 og leikinn 3-1.

Stigahæsti leikmaður heimamanna var Quentin Moore með 24 stig og hjá gestunum var Alexander Stefánsson stigahæstur með 14 stig.

Síðari leikurinn var mjög sveiflukenndur og virtust Aftureldingarmenn staðráðnir í að hefna fyrir tapið daginn áður.

Fyrsta hrinan var mjög jöfn og spennandi alveg þangað til í lokin. Í stöðunni 20-19 fyrir KA setti Afturelding í fluggírinn og þökk sé þremur stigum úr uppgjöf frá Alexander Stefánssyni skoruðu þeir sex síðustu stig hrinunnar og unnu hana því 20-25.

Afturelding hafði undirtökin alla aðra hrinu og hleyptu KA aldrei inn í hana. KA menn minnkuðu muninn örlítið undir lok hrinunnar en lauk henni þó með 22-25 sigri Aftureldingar og KA því komnir með bakið upp við vegg.

KA byrjuðu þriðju hrinuna töluvert betur og náðu strax upp góðu forskoti. Um miðbik hrinunnar gerðu þeir þó mikið af mistökum og hleyptu Aftureldingu fram úr sér. Allt leit út fyrir að Afturelding myndi sigla þægilegum 0-3 sigri í höfn þegar þeir leiddu 20-23 en allt kom fyrir ekki þar sem KA menn skoruðu fimm síðustu stig hrinunnar og unnu hana 25-23.

Fjórða hrina var eign KA manna allt frá upphafi. Þeir skoruðu sex stig í röð í stöðunni 6-6 og hleyptu Aftureldingu aldrei inn í hrinuna á ný. Lauk henni með 25-20 sigri KA og oddahrina því raunin.

Oddahrinan byrjaði gríðarlega vel fyrir KA menn og leiddu þeir 8-2 þegar skipt var um völl. Þeir komust að lokum í 14-8 og leit allt út fyrir þægilegan sigur þeirra. Sú varð ekki raunin þar sem Afturelding fékk fimm stig í röð og hleypti spennu í leikinn. Quentin Moore sá svo að lokum um að skora lokastig leiksins og 3-2 sigur KA manna því staðreynd.

Quentin Moore var aftur stigahæstur KA manna með 33 stig en Felix Þór Gíslason var stigahæsti leikmaður Aftureldingar með 15 stig.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó