KA tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla með 3-0 sigri á HK. Liðið vann því allar 3 keppnir tímabilsins og eru því Deildar-, -Bikar og Íslandsmeistarar.
Leiknum í kvöld lauk með öruggum 3-0 sigri KA manna sem vann því úrslitaeinvígið gegn HK 3-0.
Fyrsta hrinan var gríðarlega jöfn og spennandi og voru það gestirnir sem leiddu lengst af en KA liðið var aldrei langt undan. Það var svo á lokasprettinum sem KA seig framúr og vann að lokum 25-22 sigur og KA-Heimilið sem var þéttsetið fagnaði gríðarlega.
Næsta hrina var líkt og sú fyrri hnífjöfn og spennandi. En þegar líða fór á tók KA liðið kipp og náði góðu taki á leiknum. Gestirnir áttu fá svör við góðri spilamennsku KA liðsins og undir lokin var aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda, KA vann 25-17 og komið í 2-0. Stemningin í húsinu algjörlega frábær.
KA liðið var greinilega búið að finna taktinn og náði strax góðri forystu í þriðju hrinunni. Munurinn á liðunum var 3-5 stig mest alla hrinuna en undir lokin þá náði KA liðið að bæta enn frekar við og vann á endanum öruggan 25-15 sigur og samanlagt 3-0.
Texti tekinn af KA.is
Frábær endir á frábæru tímabili hjá KA mönnum sem eru án alls vafa sterkasta blaklið landsins í dag. Við hjá Kaffinu óskum KA mönnum til hamingju með frábæran árangur á tímabilinu!
UMMÆLI