Breiðablik gerði tilboð í Ívar Örn Árnason, fyrirliða og varnarmann KA, en því var hafnað samkvæmt heimildum Fótbolta.net. Þar kemur einnig fram að heyrst hafi að tilboðið hafi verið upp á tíu milljónir króna.
Ívar Örn er 28 ára miðvörður sem er uppalinn hjá KA og á sex tímabil að baki með meistaraflokki félagsins í efstu deild. Ívar er samningbundinn út 2026 og lék lykilhlutverk þegar KA varð bikarmeistari í fyrra.
Í gær var einnig greint frá því á Fótbolta.net að KA hefði áhuga á því að fá miðjumanninn Bjarna Mark Duffield aftur til félagsins en Fram er einnig að reyna að fá hann frá Val.