KA deildarmeistari í blaki

Lið KA eftir sigurinn í gær

Blaklið KA tryggði sér í gær deildarmeistaratitil í flokki karla með sigri á HK í KA-heimilinu. Þetta er sjötti deildarmeistaratitill félagsins og sá fyrsti síðan árið 2011.

Liðin skiptust á stigum í upphafi leiks og tókst hvorugu liðinu að slíta sig frá hinu. KA menn komust skrefi á undan þegar þeir komust 18-14 yfir. HK minnkuðu muninn örlítið undir lok hrinunnar en það var um seinan og KA sigldu 25-21 sigri í höfn. Það var því ljóst að HK máttu ekki leyfa KA að vinna aðra hrinu ef þeir vildu vinna titilinn.

HK hófu aðra hrinuna af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú stigin. Hægt og sígandi minnkuðu KA bilið og komust yfir í stöðunni 8-7. Þeir héldu áfram að auka muninn og var hann mestur 5 stig í stöðunni 23-18. Þá fór Gary House í uppgjöf hjá HK og gerðu KA mönnum lífið leitt. HK skoruðu fjögur stig í röð og hleyptu mikilli spennu í leikinn. Eitthvað virðist pressan hafa náð til manna þar sem Gary House tók meira en 8 sekúndur í það að gefa upp frá því að dómari leiksins flautaði og fékk KA því stigið. Vigfús J Hjaltalín kom þá inn á völlinn í stað Mason Casner hjá KA og skoraði síðasta stig hrinunnar beint úr uppgjöf. Það var því ljóst að HK ættu ekki möguleika á að ná KA og KA því orðnir meistarar Mizundeildarinnar 2017-2018.

Eitthvað virtist það slá KA menn út af laginu þar sem HK hóf þriðju hrinuna af miklum krafti og komust fljótt 6 stigum yfir í stöðunni 5-11. Líkt og í annarri hrinunni minnkuðu KA menn bilið hægt og sígandi og komust á endanum yfir í stöðunni 19-18. Allt leit út fyrir að KA myndi innsigla 3-0 sigur þar sem þeir leiddu 24-21. HK skoruðu þá 4 stig í röð og hleyptu spennu í leikinn. Á endanum fór svo að Quentin Moore skoraði síðasta stig KA manna og lauk hrinunni því 27-25 og leiknum því 3-0.

Stigahæsti leikmaður KA var Quentin Moore með 24 stig og hjá HK skoraði Gary House 12 stig.

Texti tekinn af ka.is

Við hjá Kaffinu óskum KA mönnum innilega til hamingju með glæsilegan árangur!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó