Jürgen Klopp skíðaði og gisti á lúxushóteli í Skagafirði – „Ein besta upplifun lífs míns“

Jürgen Klopp er mjög hrifinn af Íslandi.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er nýjasti íslandsvinurinn eftir að hann lofsamaði landið á blaðamannfundi fyrir leik Liverpool gegn Porto í Meistaradeildinni á mánudag. Það var hann Magnús Már Einarsson, ritstjóri fotbolti.net, sem var staddur á fundinum og fékk síðustu spurninguna þar sem hann spurði Jürgen hreinlega hvernig íslenska liðinu myndi ganga á HM í Rússlandi í sumar.

Skíðaði í Skagafirði
Jürgen byrjar að svara Magnúsi með því að segja frá því að hann hafi verið staddur á Íslandi á skíðum síðasta sumar og það hafi verið ein besta upplifun lífs hans. Töluverð umræða spratt upp á internetinu í kjölfarið um hvenær maðurinn hafi verið á landinu.
Kaffið hefur öruggar heimildir fyrir því að Jürgen Klopp skíðaði á Norðurlandinu meðan hann dvaldi á hótelinu Deplar Farm í Skagafirði.

Deplar Farm í Skagafirði. Mynd: indagare.com.

Deplar Farm er fimm stjörnu lúxushótel í Skagafirði í eigu fyrirtækisins Eleven Experience. Hótelið er ekki stórt þar sem eingöngu er pláss fyrir 30 manns í einu hverju sinni. Þar fær hver og einn gestur mjög persónulega og einstaklingsmiðaða þjónustu þar sem t.a.m. faglærðir matreiðslumenn sjá um að sérsniða matseðil að hverjum og einum gesti. Gestum stendur til boða allskonar ferðir, s.s. skíðaferðir, snjósleðaferðir o.fl. yfir veturinn þar sem þeim er skutlað ýmist á bíl eða þyrlu á áfangastað.
Fullkomin trúnaðarstefna er hjá hótelinu og upplýsa þeir því ekki um hverjir gista þar. Það er líklega ástæðan fyrir því að Jürgen Klopp naut íslenskrar náttúru alveg óáreittur án þess að nokkur vissi um veru hans á landinu í fyrra.

Skíði – Spa – Matsalur á Deplar Farm. Mynd: Indagare.com.

„Það væri stærsta stund fótboltasögunnar ef Ísland vinnur HM“
Jürgen er mikill aðdáandi íslensku þjóðarinnar ef marka má svar hans við spurningu Magnúsar á blaðamannafundinum þar sem hann segir það alveg ótrúlegt hverju Ísland hefur áorkað í fótbolta.
„Rætur fótboltans eru eins og rætur lífsins. Þú þarft ekki mikið af fólki til að gera góða hluti, þú þarft bara rétta fólkið. Það sem Ísland hefur gert í fótbolta er ótrúlegt, ekki bara í fótbolta, handbolta líka og fleiri íþróttum. Þú myndir halda að það væri bara íþróttafólk á Íslandi en þeir hafa lækna og kennara og fleira sem eru kannski líka atvinnumenn í fótbolta,“ sagði Jürgen.

Hann heldur áfram og segir að ef Ísland skyldi vinna HM þá yrði það stærsta stund fótboltasögunnar. Hann vonar jafnframt að svo verði, svo lengi sem Englandi eða Þýskalandi takist ekki að vinna titilinn.
„Ef Þýskaland getur ekki unnið, ef England getur ekki unnið þá frá mínu sjónarhorni vona ég að Ísland vinni. Það væri stærsta stund fótboltasögunnar ef svo fer.
Þetta er bara frábært land. Til hamingju með að vera Íslendingur,“ sagði Jürgen að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó