Júlí er hlýjasti mánuður aldarinnar á norðan- og austanverðu landinu ef litið er til fyrstu tuttugu daga mánaðarins. Þetta kemur fram í bloggfærslu Trausta Jónssonar veðurfræðings.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tuttugu daga júlímánaðar 14,4°C. Óvenjulegt er að meðalhiti mánaðar sé yfir 13 stigum en það gerðist þó á Akureyri í júlí 1933 þegar hitinn reiknaðist 13,3°C. Hitinn í ár er því meira en einu stigi hærra en vitað er um sömu daga áður.
Hitatölur frá Akureyri ná aftur til 1936. Meðalhitinn er nú 3,6 stigum ofan meðalhita frá 1991 til 2020 og 3,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Á sama tíma hefur úrkoma á Akureyri mjög sjaldan verið minni en hún hefur mælst 2,4 mm seinustu tuttugu daga.
Þessi óvenju mikli hiti á Norðurlandi hefur haft ýmsar afleiðingar í för með sér svo sem gróðurelda, vatnavexti, þurrka og uppskerubresti. Spáð er áframhaldandi hlýindum um landið norðan- og austanvert alla þessa viku og fram í þá næstu.
UMMÆLI