NTC

Joris Rademaker opnar í Hofi

Joris Rademaker opnar í Hofi

Myndlistarmaðurinn Joris Rademaker opnar myndlistarsýningu sína Leiðir í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 6. mars kl. 14.

Joris lauk kennaranámi í Tilburg í Hollandi árið 1983 og myndlistarnámi í AKI, Enschede, Hollandi árið 1986. Hann hefur haldið sýningar á ýmsum stöðum á Íslandi eins og í Listasafni Akureyrar, Nýlistasafninu í Reykjavík, Gallerí Skugga, Safnasafninu á Svalbarðsströnd, Grafíksalnum, Safnahúsinu á Húsavík, Mjólkurbúðinni og Pálshúsi á Ólafsfirði. Eins hélt hann einkasýningar í Studiogalerie í Berlín og Den Bosch í Hollandi og samsýninguna From Iceland í Schijndel í Hollandi.

Joris var valinn Bæjarlistamaður Akureyrar árið 2006 og hlaut starfslaun myndlistarmanna árið 2014.

Joris segir setninguna „lost in space“ hafa fylgt honum í listsköpuninni. „Flest mín verk fjalla um rými, orku og tímann, sem við notum til að finna leiðir til að upplifa einhvern tilgang. Náttúran er minn helsti innblástur og abstrakt myndlist er aðferðin til að gera orkuna og hreyfingu í náttúrunni sýnilega.“

Hann segir verkin í Hofi mega skipta í tvo hópa. „Hvítu akrýlmálverkin eru eldri, en helmingur þeirra eru nýlega kláruð og í þeim fær mynduppbyggingin mesta athygli. Svörtu gvass myndirnar eru nýjar og fjalla um birtu úr myrkrinu, þar sem hringlaga form dúkkar upp.“

Eins og áður segir opnar sýningin klukkan 14 í Menningarhúsinu Hofi og eru allir velkomnir á sýninguna. Sýningin stendur til 11. apríl.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó