NTC

Jóna Sigurlaug fyrsti kvenkyns formaður Sögufélags Eyfirðinga

Jóna Sigurlaug fyrsti kvenkyns formaður Sögufélags Eyfirðinga

Formannsskipti urðu í Sögufélagi Eyfirðinga í vikunni. Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir fjölmiðlafræðingur (og Þingeyingur!) tók við keflinu af nafna sínum Jóni Hjaltasyni sagnfræðingi sem hefur gegnt embættinu frá 1997. Þetta er í fyrsta sinn í 50 ára sögu félagsins sem kona er þar formaður.

Það markaði líka tímamót í sögu félagsins árið 2015 þegar fyrsta konan, Rannveig Karlsdóttir, kennari og þjóðfræðingur kom inn í stjórn. Jóna Sigurlaug slóst í hópinn árið 2019 og nú á síðasta aðalfundi bættist þriðja konan við sem varamaður en það er Aðalheiður Steingrímsdóttir, sagnfræðingur.

Formaðurinn, Jóna Sigurlaug, segir mikinn hug í nýju stjórninni og margt spennandi framundan.

Eyfirsk fræði og alþýðlegur fróðleikur

Sögufélag Eyfirðinga var stofnað árið 1971. Tilgangur félagsins er að safna, skipuleggja og skrá eyfirsk fræði og alþýðlegan fróðleik úr átthögunum og gefa efnið út.

Fyrsti aðalfundur félagsins var haldinn í júní 1973 þar sem fyrsta stjórnin var kosin. Hana skipuðu þeir Sigurður Óli Brynjólfsson formaður, Jóhannes Óli Sæmundsson framkvæmdastjóri, Kristján frá Djúpalæk ritari, Hörður Jóhannsson og Ketill Guðjónsson meðstjórnendur.

Á aðalfundi þremur árum síðar var ákveðið að falast eftir tímaritinu Súlum til kaups og gekk það eftir. Súlur eru átthagatímarit og kemur út einu sinni á ári. Innihald þess er mjög fjölbreytt og snertir á flestum flötum norðlenskrar alþýðu; fræðum og fróðleik.

Sex binda stórvirki

Stærsta verkefni Sögufélagsins til þessa er þó tvímælalaust Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár, jarða og ábúendatal frá elstu heimildum til ársloka 2000. Þetta er sex binda verk eftir handriti Stefáns Aðalsteinssonar ættfræðings. Handritin bárust félaginu um 1976 en það var ekki fyrr en eftir aldamótin sem skriður komst á málin. Skipuð var ritnefnd með Birgi Þórðarson á Öngulsstöðum í fararbroddi, og unnið var ötullega að því að koma Eyfirðingum til prentunar; sem loks varð að veruleika árið 2019.

Það er hugur í nýju stjórninni og margt í farvatninu, segi fyrr segir. Undirbúningur er til dæmis hafinn við að koma á fót heimasíðu. Hún verður „miðlunarvagga“ félagsins, segir Jóna Sigurlaug, þar sem hægt verður t.a.m. að nálgast efni úr Súlum í töluðu og rituðu máli ásamt ýmsum öðrum upplýsingum. „Það sem við þurfum líka að gera er að koma „Eyfirðingum“ á stafrænt form. Aðeins örfá sett á pappír eru enn óseld og ekki á dagskrá að prenta fleiri. Vefútgáfa er því eitthvað sem við verðum að skoða. Eins og gengur hafa einnig komið fram athugasemdir um það sem betur hefði mátt fara í þessu sex binda verki. Þess vegna er líka mikilvægt að geta komið leiðréttingum á framfæri og við eigum góða að sem eru tilbúnir að leggja í þá vinnu með okkur,“ segir formaðurinn við Akureyri.net.

Horfa út fyrir fjörðinn

Stjórnin hefur einnig mikinn áhuga á að víkka út sögusvið Súlna til byggðanna beggja vegna Eyjafjarðar. Fá efni frá nágrannabyggðarlögum og vonandi í leiðinni fleiri áskrifendur. Þegar Sögufélagið eignaðist Súlur árið 1976 voru áskrifendur um 900 talsins en hefur fækkað mjög í gegnum tíðina og eru nú um 400. „Það er eitthvað sem við þurfum að vinna með – að fjölga félagsmönnum,“ segir nýkjörinn formaður.

„Svo langar okkur líka að fara í samstarf með Akureyrarbæ og sveitastjórnum í kring við að koma upp merkingum við hús og staði sem eiga sér merkilega sögu. Til dæmis langar okkur að setja upp merkingar við þá aftökustaði í Eyjafirði sem vitað er um. En þetta höfum við ekki rætt enn við málsaðila og þess vegna vitum við ekkert hvort áhuginn verði, gagnkvæmur – hvort við fáum að vera með!“

Dugnaðarforkar

„Svo langar mig að minnast á það mikla og óeigingjarna starf sem stjórnir Sögufélagsins, ritnefndir Súlna, allir sem komu að vinnslu og útgáfu Eyfirðinga og aðrir félagsmenn hafa lagt að mörkum í gegnum tíðina,“ segir Jóna Sigurlaug. „Þetta fólk á allan heiður skilið. Dugnaðarforkar! Að lokum langar mig að þakka fráfarandi stjórnarmeðlimum, þeim Jóni Hjaltasyni formanni og Guðmundi Steindórssyni gjaldkera, sem á að baki 33 ára stjórnarsetu í félaginu, gott samstarf og hlakka til að takast á við spennandi verkefni með nýju stjórninni.“

Í fráfarandi stjórn Sögufélags Eyfirðingas voru Jón Hjaltason formaður, Jóna Friðriksdóttir varaformaður, Guðmundur Steindórsson gjaldkeri, Rannveig Karlsdóttir ritari, Jakob Tryggvason meðstjórnandi. Varamenn: Ólafur Ólafsson og Jón Hlynur Sigurðsson

Ný stjórn Sögufélags Eyfirðinga

  • Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir formaður
  • Jón Hlynur Sigurðsson gjaldkeri
  • Arnór Bliki Hallmundsson ritari
  • Jakob Tryggvason meðstjórnandi
  • Rannveig Karlsdóttir meðstjórnandi
  • Varamenn: Aðalheiður Steingrímsdóttir og Þorsteinn Hjaltason.

Björn Teitsson var ritstjóri Súlna og með honum í ritnefnd þau Ása Marinósdóttir, Kristín Aðalsteinsdóttir og Jón Hjaltason. Sömu fjórmenningar skipa hópinn áfram en Jón sest reyndar í ritstjórastólinn og Björn verður í ritnefndinni.

Hægt er að ganga í félagið, kaupa „Eyfirðinga“ eða bara segja „hæ“ – eins og Jóna orðar það – með því að senda skilaboð á Facebook-síðu félagsins hér

Þeir sem liggja á efni eða langar að skrifa í Súlur eru hvattir til þess að hafa samband við ritstjórann: jonhjalta@simnet.is


Frétt af Akureyri.net

Sambíó

UMMÆLI