NTC

Jóna Jónsdóttir kjörin nýr formaður ÍBA

Jóna Jónsdóttir kjörin nýr formaður ÍBA

Jóna Jónsdóttir var kjörin nýr formaður Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA, á 66. ársþingi bandalagsins sem var haldið hátíðlegt á Jaðri í Golfskálanum á Akureyri síðastliðinn þriðjudag, 16.apríl. Nýir meðlimir í stjórn eru þeir Alfreð Birgisson og Ásgeir Örn Blöndal. Þetta kemur fram á vef ÍBA.

Þing ÍBA fer með æðstu stjórn ÍBA og er haldið annað hvert ár. Rétt tæplega 30 þingfulltrúar frá 11 aðildarfélögum ÍBA af 20 mættu til þingsins að þessu sinni sem er því miður ekki nema rétt rúm 30% mæting af þeim þingfulltrúum sem áttu sæti á þinginu.

Ný stjórn var kosin þar sem Geir Kristinn Aðalsteinsson og Ómar Kristinsson gengu úr stjórn eftir margra ára setu, Geir eftir 10 ár í formannsstólnum og Ómar sem meðstjórnandi í 4 ár. Geir Kristinn var heiðraður bæði af fulltrúum ÍSÍ og UMFÍ á þinginu fyrir störf sín í þágu íþrótta í landinu og var honum veitt gullmerki beggja samtaka. Auk þess hlaut hann gullmerki ÍBA fyrir hans óeigingjarna framlag til bandalagsins og í garð íþrótta á Akureyri síðustu ár. Ómar hlaut silfurmerki bandalagsins fyrir sín störf.

Stjórn ÍBA er því þannig skipuð eftir þingið. Jóna Jónsdóttir formaður, Birna Baldursdóttir varaformaður, Jón Steindór Árnason gjaldkeri,  Sigrúnu Árnadóttir ritari og Alfreð Birgisson meðstjórnandi. Varamenn í stjórn eru Ásgeir Örn Blöndal og María Aldís Sverrisdóttir. Þess má því til gamans geta að með æðstu stjórn ÍBA fara þrjár konur þar sem formaður og varaformaður eru konur og framkvæmdastjóri bandalagsins einnig.

Á þinginu voru einnig heiðraðir Guðmundur Bjarnar Guðmundsson og Sveinn Torfi Pálsson sem hafa verið skoðunarmenn reikninga ÍBA síðan 2008 og hlutu þeir silfurmerki ÍBA fyrir störf sín. Ingvar þingforseti Gíslason hlaut gullmerki ÍBA. Hann hefur hefur setið í nefndum á vegum bandalagsins, hefur stýrt íþróttahátíðinni okkar í Hofi þegar við krýnum íþróttafólk ársins og svo hefur hann verið þingforseti á þingum ÍBA í ansi mörg ár. Og að lokum hlaut Skapti Hallgrímsson gullmerki ÍBA fyrir hans framlag til íþrótta á Akureyri og þá ekki síst fyrir mikla og góða fjölmiðlaumfjöllun um íþróttalífið í bænum og þær fjölmörgu myndir sem hann hefur tekið af íþróttafólki bæjarins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó