Leikarinn og skemmtikrafturinn Jón Gnarr segir að eftir að hann hafi búið og starfað í heilan vetur á Akureyri sé honum orðið ennþá betur ljóst hvað það sárvanti járnbrautalest á Íslandi. Jón segir að lest myndi ekki einungis tryggja vistvænar samgöngur og vöru- og fólksflutninga heldur einnig tryggja lifandi byggð um allt land.
„Ef lest gengi á milli Akureyrar og Reykjavíkur þá myndum við minnka álag á vegina með þungaflutningum, snarminnka bílaumferð og draga úr slysahættu. lestir eru hagkvæmur ferðamáti fyrir fjölskyldur og umhverfisáhrifin yrðu bara jákvæð,“ skrifar Jón á Twitter síðu sinni.
Sjá einnig: Jón Gnarr segist ætla að bjóða sig fram á Akureyri
Jón sem fer með aðalhlutverkið í sýningu Leikfélags Akureyrar á Skugga Svein og hefur því búið á Akureyri í vetur. Hann hefur áður viðrað hugmyndir um járnbrautarteina á milli Reykjavíkur og Akureyrar en segir að eftir búsetuna á Akureyri hafi honum orðið það ljóst að það sárvanti lest á milli staðanna. Hann segir lestarsamgöngur vera pólitískt mál sem mætir helst mótstöðu hjá aðilum sem græða á bílaflutningum.
Sjá einnig: Vill leggja járnbrautarteina á milli Reykjavíkur og Akureyrar
„Lestarsamgöngur á Íslandi eru pólitískt mál. þær eru fyrst og fremst fyrir fólkið. hugmyndin mætir mestri fyrirstöðu hjá þeim aðilum sem reka rútufyrirtæki, olíufyrirtækjum, bílainnflytjendum, bílaleigum og flutningafyrirtækjum #Lestarflokkurinn,“ skrifar Jón á Twitter.