NTC

Jólavagn, áramótatónleikar og málverk Helga í Kristnesi

Jólavagn, áramótatónleikar og málverk Helga í Kristnesi

Hann trúði á Krist. Einn vetur mikinn í aðdraganda jóla helgaði hann sér blett fyrir framan Flóru í Hafnarstræti á Akureyri. Þar kom hann sér upp búi í jólavagni einum. Hann sat frá miðjum desember og fram að jólum og seldi gestum og gangandi jólatré og handverk. Á Þorláksmessu færði hann bú sitt aftur í Kristnes. Í búfærslunni horfði hann inn til fjarðarins er kallaður var Eyjafjörður af eyjum þeim er þar lágu úti fyrir. Þá sá hann að svartara var yfir. Í skugga farsóttar naut hann jóla í Kristnesi. Eftir þetta varð honum hugsað til áramóta og þess hvort Landnám hans og hljóðfæraleikaranna myndi óma að hans ráði eins og undanfarin áramót.

Úr Grenndargrálu

Helgi Þórsson frá Kristnesi í Eyjafjarðarsveit er fjöllistamaður. Hann smíðar gripi úr járni, sker muni úr tré, hannar og saumar fatnað og málar myndir svo eitthvað sé nefnt. Fjölbreytileikinn hefur líklega ekki farið framhjá þeim sem lögðu leið sína í jólavagn þeirra Helga og Beate Stormo eiginkonu hans á aðventunni. Í hverju skúmaskoti vagnsins úði og grúði af smáum og stórum handverksmunum.

Málverk sem Helgi var með til sölu í vagninum og sýnir andstæðar kynjaverur vakti athygli Grenndargralsins; dökkt kattardýr og ljóst dýr af héraætt, hauskúpa og ávöxtur. Þannig hefur náttúran verið áberandi í listsköpun Helga í gegnum tíðina þar sem andstæður takast á, gjarnan í formi dýra og beina, lífs og dauða. Í huga undirritaðs vekur málverkið upp hugrenningatengsl við fortíðina, n.t.t. við ákveðna hirslu sem er í fórum Gralsins og inniheldur tæplega 40 ára gamalt „helgiskrín“.

Aukinheldur er Helgi söngvari hljómsveitarinnar Helgi og hljóðfæraleikararnir. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum væru þeir félagar núna að gera sig klára fyrir árlega áramótatónleika. Helgi, Atli, Beggi, Bobbi og allir hinir sem hafa staldrað við í bandinu um lengri eða skemmri tíma hafa um langt árabil staðið á sviðinu á næstsíðasta degi ársins og þannig kvatt ófá árin með söng og hjóðfæraleik.

Í ljósi aðstæðna má gera ráð fyrir að heimsóknum í jólavagn Helga og Beate í desember hafi fækkað frá fyrri árum. Þá er spurning hvort Helgi og hljóðfæraleikarar hans ná að kveða burt árið 2020 – og öll leiðindin sem því árinu fylgja. Grenndargralið hafði samband við Helga og spurði hann út í þennan óvenjulega desembermánuð í jólavagninum og hvernig tónleikahaldi H&H verði háttað um áramótin.

Salan í vagninum gekk vel. Það var reitingur af fólki alla dagana, en maður saknaði svolítið að geta ekki verið með smá Þorláksmessu partístemmingu. Við vorum með opið, helgina 12. desember og svo frá 16. – 23. des. Eins og venjulega voru þetta jólatré úr eigin ræktun og greinar ásamt handverki eftir okkur hjónin og reyndar fleiri fjölskyldumeðlimi.

Já tónleikar verða með minna móti um þessi áramót. En Haukur á Græna vill fá okkur í janúar. Ef til vill spilum við bara fyrir hann og dyravörðinn. Líklega er hann kominn með fráhvarfseinkenni.

Hvað með málverkið með kisunni, héranum, hauskúpunni og ávextinum. Hver er sagan á bak við það og er það selt eða falt?

Hvernig sem á því stendur þá eru nokkur stef sem æfinlega hafa gengið í gegnum mína myndlist. Það eru blóm, dýr, hálfnaktar konur, hauskúpur og augu sem stara beint á áhorfandann. Á þessari mynd er auk þess appelsína en hún er sótt í gullöld hollenskra kyrralífsmálara, en því miður var ekki pláss fyrir nakta konu enda er myndin svo lítil. Já myndin kostar 15000 krónur. Útsölurnar eru hafnar.

Listaverk Helga síðustu áratuga eru orðin fjölmörg rétt eins og þau eru fjölbreytt. Eitt er það listaverk eftir fjöllistamanninn sem verður að teljast einstakt í sinni röð. Undirritaður fékk jólakort á Litlu jólum í grunnskólanum í Hrafnagilshreppi í desember 1981. Hann var þá á yngsta ári. Kortið var frá nemanda á elsta ári. Á gulum pappír er máluð mynd af einhvers konar fígúru sem líkist helst ungum skógarbirni. Hún minnir þó einnig á einhvern óræðan hátt á gamlan elg, hverju sem sætir. Fígúran heldur á priki. Á kortinu stendur; Gleðileg jól. Til Brynjars. Frá Helga Þó.

Ekki var algilt að jólakort væru teiknuð af gefandanum sjálfum árið 1981 þegar stimplar og glansmyndir réðu för við kortagerð. Síður en svo. Það að teikningin bæri vott um hæfileika þess sem gerði og gaf jólakortið var kannski enn fágætara og því vakti það mikla kátínu viðtakandans á sínum tíma. Svo mikla að því var strax helgaður sérstakur bústaður í fallegri hirslu með helgum munum úr æsku svo sem gúmmí-fígúrunum He-Man og Beina og appelsínugulu kisulórunni Gretti.

Allar götur síðan 1981 hefur þetta litla málverk Helga, sem mögulega er í hópi elstu málverka listamannsins, legið í hirslunni góðu. Grenndargralið hefur nýlega tekið í notkun vinnuaðstöðu til grúsks í Kristnesi. Kannski er við hæfi að ramma málverkið inn og hengja það upp þar. Vinnuaðstaðan er í gömlu æfingahúsnæði Helga og hljóðfæraleikaranna.

Heimild: Grenndargralið.

Myndir eru úr safni Helga Þórssonar.

Sambíó

UMMÆLI