Jólaleg gluggasýning opnar í Hafnarstræti á sunnudaginn

Jólaleg gluggasýning opnar í Hafnarstræti á sunnudaginn

Gluggasýning desembermánaðar í Hafnarstræti 88, þar sem Brynja Harðardóttir Tveiten myndlistarkona starfrækir vinnustofu sína, einkennist að þessu sinni af umvefjandi jólatöfrum og notalgíu. Sýningin sem nefnist Jólaævintýrið opnar sunnudaginn 1. desember næstkomandi og stendur út aðventuna og jólahátíðina. Sýningin hentar ungum sem öldnum jólabörnum og er aðgengileg öllum stundum þar sem hennar er notið utan frá séð.

Systurnar Brynja og Áslaug Harðardóttir Tveiten öðru nafni Fröken Blómfríður eiga heiðurinn af sýningunni. Þær systur hvetja öll að gera sér ferð fram hjá glugganum og stíga inn í Jólaævintýrið með þeim um stund. Þær mæla með að fólk gefi sér tíma til að staldra við í dagsins önn, leyfi hugmyndarfluginu að leika lausum hala og ímyndi sér atburðarás og persónur út frá sögusviði gluggans. Eins má bregða á leik, leita að jólasveinunum og öðrum jólaverum, velja sér fallegasta, skrýtnasta eða jafnvel ljótasta jólaskrautið, taka myndir, rifja upp gamlar minningar en fyrst og fremst umvefja sig hlýju og gleði jólanna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó