Jól allsnægtanna

Jól allsnægtanna

Fyrir jólin 1974 hafði blaðamaður Íslendings samband við tvo þekkta bæjarbúa á Akureyri og bað þá um að deila minningum frá eftirminnilegum æskujólum með lesendum blaðsins. Afraksturinn birtist í jólablaði sem kom út 19. desember þetta sama ár undir liðnum Jól sem aldrei gleymast. Minningar Kristjáns frá Djúpalæk (1916-1994), Jólin sigldu framhjá má lesa á grenndargral.is. Sagnalist rifjar hér upp frásögn Fríðu Sæmundsdóttur kaupkonu (1908-1998), Jól allsnægtanna.

„Þegar spurt er um hvaða jól séu manni minnisstæðust, verður mér eins og svo mörgum öðrum, hugsað til bernsku áranna, finnst að jólin frá þeim árum séu minnisstæðust.

Það væri ef til vill eðlilegra, að við sem erum búin að lifa tvenna tímana, bernskujól í fábreyttu umhverfi og við kröpp kjör, og á seinni tímum jól velmegunarinnar, ættum betri minningar frá seinni árunum. En því er ekki alltaf þannig farið.

Jól velmegunarinnar hafa tekið frá okkur það sem í æsku var svo dýrmætt, nægjusemina, og það að geta glaðst af litlu.

Þau jól, sem mér eru minnisstæðust, eru þau þegar ég sem barn fékk að skyggnast inn í þann áður óþekkta heim, jól allsnægtanna.

Ég átti heima í litlu húsi í kaupstað. í þessum kaupstað átti heima meðal annarra vel efnaður útgerðarmaður, hann rak líka verslun. Hjá þessum manni vann móðir mín. Hann átti dóttur á sama reki og ég var og lékum við okkur oft saman í útileikjum, en aldrei hafði ég komið inn til hennar.

Húsið, sem útgerðarmaðurinn og fjölskylda hans bjuggu í, var mjög stórt, íbúðin var á efri hæðinni, en verslunin á neðri hæðinni.

Ég bjó eins og áður sagði í litlu húsi, í lítilli íbúð með móður minni og systkinum, leið þar vel og hafði ekki yfir neinu að kvarta.

Svo var það einu sinni að morgni aðfangadags, að barið var að dyrum hjá okkur. Dóttir útgerðarmannsins, sem kölluð var Magga, var komin með þau skilaboð frá móður sinni, að ég mætti koma og vera hjá þeim um kvöldið, ef ég vildi. Mamma sagði, að sjálfsagt væri fyrir mig að þiggja boðið, þetta mundi verða svo gaman fyrir mig.

Ég hlakkaði mikið til kvöldsins, en þó var ekki alveg laust við að ég saknaði þess að vera ekki heima. En nú var tíminn að koma, sem ég átti að mæta á. Ég hoppaði niður götuna, reyndi samt að þræða bestu leiðina, svo ég yrði ekki blaut af snjónum, því nú var mikið í húfi að líta vel út.

Mamma hafði beðið frænku mína að sauma á mig kjól, hún var saumakona og átti danskt blað með kjólum í. Kjóllinn var úr „mússulíni“ með rósum í og slaufa úr silkiborða í hálsinn. Ég var himinsæl með útlit mitt. Ég var komin að dyrunum á fína húsinu hjá Möggu og gerði vart við mig. Vinnukonan kom til dyra, ég varð hálf vandræðaleg og vissi ekki hvað ég ætti að segja, en þá kom Magga mér til hjálpar og sagði mér að koma inn.

Gangurinn var uppljómaður með olíuljósum, lamparnir héngu á veggjunum, og á móti mér kom ilmur, sem ég gerði mér ekki grein fyrir af hverju var, en góður var hann.

Mamma Möggu kom nú til okkar og sagði að við skyldum vera í herbergi Möggu og systra hennar, hún mundi kalla á okkur þegar búið væri að kveikja á jólatrénu. Eftir nokkra stund var kallað á okkur. Ég stóð í dyrunum á „stáss stofunni,“ en það voru fínustu stofurnar kallaðar, og þvílík dýrð, sem blasti við mér.

Á miðju gólfi stóð jólatré, það var lifandi jólatré. Aldrei á ævi minni hafði ég séð annað eins. Kertin voru fest á með klemmum, sem voru eins og litlir kertastjakar í laginu, og ljósin voru óteljandi, að mér fannst. Það var mikið af alls konar skrauti, bréfræmur, jólapokar bólgnir af sælgæti, og margt fleira. Magga sagði að jólatréð hefði komið frá Kaupmannahöfn.

Eftir að hafa horft lengi á jólatréð, fór ég að litast um í stofunni, og þar var margt að sjá. Stór kolaofn var eins og að hálfu leyti inni í einum vegg stofunnar. Hann var allur prýddur krómuðu skrauti, bæði á hurðum og eins að ofan og neðan. Fyrir framan ofninn man ég að var eitthvert furðuverk úr messing, mjög glansandi og fallegt. Mamma sagði mér seinna, að þetta væri haft fyrir framan ofna, svo ekki færu neistar á gólfið, þegar ofninn væri notaður. Þarna voru rauðar „plussmublur“, sófi og stólar, allar í dúskum og kögri, sem náði niður undir gólf, fallegur lampi hékk í loftinu og á honum var gler-skraut, sem ljósið brotnaði í og gerði hann svo glæsilegan. Þarna var líka píanó og margt fleira, sem ég hafði aldrei séð áður. Gardínurnar voru hvítar og efnismiklar, og teknar saman með breiðum, hekluðum böndum. Stofan við hliðina á fínu stofunni var með stórum, útskornum húsgögnum, ótal diskar og skildir héngu á veggjunum og alls staðar hvítir, stífaðir dúkar á borðum. Skrifstofa húsbóndans var inn af borðstofunni og þaðan gengið fram í aðal forstofuna.

Eftir að Magga hafði sýnt mér allt þetta, var ég eins og í leiðslu, tók naumast eftir því að frúin var að kalla á okkur til þess að ganga í kringum jólatréð. Eldri systirin settist við píanóið og spilaði jólasálma, öll fjölskyldan ásamt mér og vinnukonunni gekk kringum jólatréð og söng.

Nú var komið að því að útbýta jólagjöfunum, en þær höfðu verið settar á gólfið undir trénu. Ekki er ég viss um að þær þættu stórkostlegar nú á dögum, jólagjafirnar, sem börnin og fólkið á þessu ríka heimili fengu, en það virtist vera mjög ánægt, og þá ekki síður ég, því ég fékk líka smágjöf. Nú var útbýtt pokunum, sem voru á jólatrénu. Í þeim var brjóstsykur, döðlur, gráfíkjur o.fl. Ég borðaði lítið af því, sem í mínum poka var, langaði meira til þess að fara með það heim. Þegar öllu þessu var lokið, var sest að súkkulaði- og kaffidrykkju í borðstofunni. Mikið af fallegu og góðu brauði var á borðum, en mest man ég eftir, hvað hálfmánarnir voru góðir og sultan mikil í þeim, mamma hafði aldrei svona mikla sultu í þeim.

Allt í einu var eins og ég vaknaði af draumi, mér varð hugsað til mömmu, hún væri eflaust farin að bíða eftir mér, og nú héldu mér engin bönd lengur. Ég þakkaði vel fyrir mig og hljóp heim.

Þegar ég vaknaði morguninn eftir, fannst mér að mig hefði verið að dreyma þetta allt, og það tók mig dálitla stund að átta mig á því, að þetta hefði verið veruleiki. Ekki fann ég til þess að ég öfundaði Möggu af því að eiga svona fínt heimili, síður en svo, það var svo dásamlegt að vera aftur heima.

Í næsta húsi við okkur bjó vinafólk okkar, þar voru systur á svipuðu reki og ég, sem ég lék mér alltaf við. Á jóladaginn báðu þær mig að koma inn til sín og sjá það, sem þær höfðu fengið í jólagjöf, og jólatréð, sem þær höfðu búið sér til.

Þær drógu fram á gólfið gamlan stól, sem einhverntíma hafði verið með rimlum í bakinu, en nú voru þeir horfnir, og holurnar eftir þá stóðu auðar. Í þessar holur höfðu þær fest nokkrar blaðlausar trjágreinar og skeyttu þær saman með körfum, sem þær höfðu búið til sjálfar, og ræmum úr pappír, kertin voru svo á stólsetunni.

Mér varð hugsað til jólatrésins frá kvöldinu áður, en mamma var búin að vara mig við því að miklast ekki yfir því að hafa verið boðin í svona fínt jólaboð, svo ég sagði ekki neitt.

Þegar við fórum að ganga í kringum stólinn og syngja og hlæja, eins og börnum er lagið, fann ég til þeirrar einlægu gleði, sem mér var svo miklu eðlilegri en sú gleði, sem ég tók þátt í kvöldið áður, og þó ég væri svo innilega þakklát fyrir að hafa fengið að sjá alla þá dýrð, þá var eins og hún félli í skuggann fyrir því að njóta hinnar sönnu gleði, sem aðeins er hægt að finna í því umhverfi, sem manni þykir vænt um.“

Heimildir:

Sagnalist.

Fríða Sæmundsdóttir. (1974, 19. desember). Jól allsnægtanna. Íslendingur, bls. 3 & 15.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó