NTC

Jóhann Valur stóð uppi sem sigurvegari í Hæfileikakeppni Akureyrar

Jóhann Valur stóð uppi sem sigurvegari í Hæfileikakeppni Akureyrar

Hæfileikakeppni Akureyrar 2023 var haldin í apríl en keppnin var haldin í tengslum við Barnamenningarhátíð og var ætluð börnum í 1. – 10. bekk. Sigurvegari keppninnar var í þetta skiptið Jóhann Valur Björnsson en hann er nemandi við Tónlistarskólann á Akureyri. Jóhann Valur flutti frumsamið píanóverk og hann sagði frá tilurð verksins á heimasíðu Tónlistarskólans á Akureyri.

„Hugmyndin á verkinu Penta kom til í tónsmíðartíma. Okkur var gefið heimaverkefni að semja verk með aðeins 5 nótum. Ég fór heim og fann laglínu sem mig langaði að halda áfram með, en ég gerði það aldrei. Ég lagði verkið til hliðar. Síðan, á síðasta degi skilafrestsins ákvað ég að koma fram með einmitt það verk, en það var langt frá því að vera tilbúið.“

„Ég fór í píanó tíma til kennara míns hans Þorvaldar og við komum hugmyndinni í almennilegt verk meðal annars með því að stækka tónsviðið í meira en 5 nótur, en uppruninn er enn til staðar. Verkið er afar ómstrítt og þegar ég var að semja verkið togaði það í tilfinningar. Ég vil að verkin sem ég sem, hafi áhrif þegar ég stend upp frá píanóinu. Þetta verk gerði það svo sannarlega. Nafnið Penta kom til því Penta þýðir fimm. Það minnir á uppruna verksins og Penta er ekki flókið nafn, eins og verkið mitt sem er einmitt ekki flókið í grunninn. Ég hef keppt þrisvar áður í keppninni. Markmiðið með því að keppa er að dreifa tónlistinni minni og koma henni á framfæri. Ég vil að tónlistin mín teikni mynd í huganum með því að segja sögur án orða,“ segir Jóhann Valur.

Sambíó

UMMÆLI