Jóhann og Gísli nældu í brons á EM í Portúgal

Jóhann og Gísli nældu í brons á EM í Portúgal

Akureyringarnir Jóhann Gunnar Finnsson, 17 ára og Gísli Már Þórðarson, 16 ára voru valdir í 20 manna blandað unglingalandslið í hópfimleikum í lok júní á þessu ári. Þeir voru svo hluti af hópnum sem tryggði sér brons í EM í hópfimleikum í Portúgal í byrjun desember.

Strákarnir hafa æft stíft síðan í sumar og dvalið töluvert fyrir sunnan. Þeir voru í æfingabúðum á Akranesi síðastliðið sumar. Í september og október voru langar æfingahelgar hjá strákunum fyrir sunnan. Þeir þurftu svo undir það síðasta að dvelja eingöngu fyrir sunnan, þar sem æft var fimm sinnum í viku, þrjár klukkustundir í senn.

Jóhann stundar nám við raungreinabraut MA. Hann hefur þurft að stunda nám sitt í fjarnámi síðan í október. Báðir hafa mætt miklum skilningi hjá skólunum sínum, en Jóhann hefur tekið próf í Verslunarskólanum. Gísli Már er nemandi í VMA á vélstjórnarbraut og hefur honum alltaf tekist að mæta í verklegu hlutana, þrátt fyrir mikið æfingaálag, og þess utan verið duglegur að læra fyrir sunnan. Báðir eiga langan feril í áhaldafimleikum að baki lengst af undir stjórn þjálfarans Jan Bogodoi.

Jóhann byrjaði að æfa rúmlega þriggja ára og Gísli þegar hann var fimm ára. Þeir skiptu yfir í hópfimleika á þessu ári og æfðu undir stjórn Erlu Ormarsdóttir, skömmu síðar voru þeir valdir í landsliðið. Báðir drengirnir eru í skýjunum með upplifunina og bronsið.

Gísli segir upplifunina hafa verið frábæra að fá að taka þátt í svona stórmóti og bætir við að þetta sé skemmtilegasta félagslíf sem hann hefur komist í. „Þetta er ekkert eðlilega gaman,“ bætir Jóhann við.

Gleðin og liðsandinn leynir sér ekki hjá þessu frábæra íþróttafólki og það má sjá á Instagram síðu hópsins juniormix_iceland.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó