Jóhann og Aldís eru íþróttafólk SA árið 2022

Jóhann og Aldís eru íþróttafólk SA árið 2022

Jóhann Már Leifsson og Aldís Kara Bergsdóttir eru íþróttafólk SA árið 2022. Aldís var valin skautakona ársins hjá listhlaupadeild félagsins á dögunum og skautakona ársins hjá Skautasambandi Íslands árið 2022. Jóhann var valinn íshokkímaður íshokkídeildar SA árið 2022 sem og íshokkímaður ársins hjá Íshokkísambandi Íslands. Þau Jóhann og Aldís voru heiðruð í upphafi leiks SA og SR í Hertz-deild kvenna á laugardag.

Á vef SA segir eftirfarandi um íþróttafólk SA árið 2022:

Jóhann Már Leifsson íþróttakarl SA 2022

Jóhann er 29 ára sóknarmaður og spilaði stórt hlutverk í liði SA Víkinga sem urðu Íslandsmeistarar á árinu og var stigahæsti leikmaður Íslandsmótsins þar sem hann var með 16 mörk og 24 stoðsendingar í 16 leikjum. Jóhann var lykileikmaður í liði Íslands sem vann gullverðlaun á Heimsmeistaramótinu í 2. deild B í vor en Jóhann var í 5. sæti yfir stigahæstu leikmenn mótsins og var valinn besti leikmaður Íslands á mótinu og verðlaunaður fyrir að vera besti sóknarmaður mótsins. Jóhann er stigahæsti leikmaður Íslandsmótsins sem nú er í gangi með 8 mörk og 15 stoðsendingar í 10 leikjum. Jóhann hefur ávallt lagt hart að sér en líka ávallt reiðubúin að taka til hendinni fyrir sitt félag og er frábær fyrirmynd í alla staði.

Aldís Kara Bergsdóttir íþróttakona SA 2022

Skautaárið 2022 byrjaði með látum hjá Aldísi en í janúar 2022 keppti Aldís Kara fyrst íslenskra skautara á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Tallinn, Eistlandi, og hlaut 42,23 stig  sem skilaði henni 34. sæti. Eftir þátttöku sína á Evrópumeistaramótinu keppti hún á Norðurlandamótinu í Hørsholm, Danmörku en þar hlaut hún alls 119,75 stig. En það eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið á Norðurlandamóti. Aldís Kara lauk svo tímabilinu með þátttöku sinni á RIG með alls 117,31 stig. Síðasta mót Aldísar var svo Haustmót 2022 sem haldið var í Egilshöll þar sem hún fékk 128,14 stig.

Afrek Aldísar Köru eru ekki síður mikilvæg fyrir alla íþróttina en hún er fyrsti íslenski skautarinn til að hljóta þátttökurétt á Heimsmeistaramóti Unglinga sem  og á Evrópumeistaramóti fullorðinna í 27 ára sögu Skautasambandsins Íslands. Með þessum afrekum braut Aldís Kara blað í skautasögu Íslands.

Sem afreksskautari í Senior flokki hefur Aldís Kara sífellt verið að bæta sinn persónulega árangur en Íslandsmet hennar eru 136,14 heildarstig sem hún náði á Íslandsmóti 2021 sem eru hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið hérlendis. Besta árangri sínum á alþjóðlegu móti náði hún á Finlandia Trophy 2021 þar sem hún hlaut 122,11 heildarstig.

Allan sinn skautaferil hefur Aldís Kara verið gríðarlega mikilvæg fyrirmynd fyrir sér yngri skautara þar sem hún hefur ávallt unnið að sínum markmiðum af mikilli elju. Aldís Kara tilkynnti nýverið að hún hefði lagt skautana á hilluna eftir 15 ára farsælan skautaferil. Hún æfði með Skautafélagi Akureyrar lengst af undir leiðsögn Iveta Reitmayerova en síðar Darja Zajcenko. Er ekki annað hægt að segja en að hún geti gengið stolt frá borði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó