Jóan Símun Edmundsson hefur skrifað undir hjá knattspyrnudeild KA á Akureyri. Jóan verður heldur betur góður liðsstyrkur fyrir komandi sumar hjá liðinu. Jóan er 33 ára gamall framherji/miðjumaður frá Færeyjum og einn besti knattspyrnumaður í sögu Færeyja en hann hefur leikið 94 landsleiki fyrir þjóð sína og gert í þeim 8 mörk. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef KA.
Þetta verður í annað sinn sem Jóan spilar fyrir KA en hann gekk fyrst í raðir félagsins í lok júlí mánaðar sumarið 2023. KA fólk veit því allt um gæðin sem Jóan býr yfir á knattspyrnuvellinum.
Hallgrímur Jónasson þjálfari KA lék með Jóan með liði OB í Danmörku á sínum tíma en Jóan hóf feril sinn með B68 Toftir í Færeyjum og hefur átt gríðarlega flottan feril þar sem hann hefur leikið með stórum liðum eins og Newcastle, Viking, Fredericia, Vejle, OB, Arminia Bielefeld og Beveren áður en hann kom fyrst til KA.
Undanfarið hefur hann leikið með liði KF Shkupi í Makedóníu en kemur norður á frjálsri sölu og verður virkilega spennandi að sjá kappann aftur í gula og bláa búningnum. KA leikur á ný í evrópukeppni í sumar og ljóst að reynsla Jóans mun hjálpa liðinu í þeirri baráttu auk leikjanna í Bestu deildinni og í titilvörn liðsins í Mjólkurbikarnum.