NTC

Jana Salóme og Ásrún vilja leiða lista VG á Akureyri

Jana Salóme og Ásrún vilja leiða lista VG á Akureyri

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, varabæjarfulltrúi á Akureyri og Ásrún Gestsdóttir, varaformaður svæðisfélags VG Akureyrar og nágrennis, tilkynntu á félagsfundi VG á Akureyri í gærkvöldi um framboð sitt til þess að leiða lista VG á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum, 14. maí næstkomandi.

Jana er menntaður efnafræðingur, með gráðu í mannauðsstjórnun og hefur starfað sem hótelstjóri á sumrin, en vinnur nú á veitingastaðnum Berlín. Jana situr í Umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar og í stjórn Hafnarsamlags Norðurlands. Auk þess situr hún í stjórn VG á Akureyri, er formaður stjórnar kjördæmisráðs VG í Norðausturkjördæmi og varaformaður Ungra vinstri grænna.

Ásrún hefur gegnt ýmsum störfum fyrir VG bæði innan sveitarfélagsins og á landsvísu. Á líðandi kjörtímabili hefur hún setið fyrir hönd VG í frístundaráði og núna hinu nýja sameinaða fræðslu- og lýðheilsuráði Akureyrarbæjar. Hún hefur einnig setið sem varaformaður svæðisfélags VG Akureyrar og nágrennis síðustu fimm ár.

„Akureyrarbær hefur allt sem til þarf til að vera leiðandi í umhverfismálum. Nauðsynlegt er að taka afgerandi afstöðu í loftslagsmálum, bæta aðstöðu fyrir aðra samgöngumáta en einkabílinn, fara í innleiðingu á nýju leiðarkerfi strætó og flýta framkvæmdum á samþykktu stígakerfi bæjarins. Loftgæði á Akureyri eiga aldrei að fara yfir heilsuverndarmörk, börn, aldraðir og lungnasjúklingar eiga ekki að þurfa að sleppa útiveru vegna slæmra loftgæða. Nauðsynlegt er að gætt sé að jafnræði barna í sveitarfélaginu og stefna þarf að gjaldfrjálsum skólamáltíðum og tekjutengingu leikskólagjalda. Einnig þarf að auka valfrelsi barna um hvers kyns mat þau borða í skólum og leikskólum og leggja þarf meiri áherslu á grænkerafæði. Einnig þarf að huga að framtíðarmönnun leikskóla sveitarfélagsins, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Jana Salóme í tilkynningu.

„Ég bjó í 11 ár á neðri Brekkunni á Akureyri en flutti á æskuslóðirnar í Hrísey í lok síðasta árs með eiginmanni mínum og börnum. Börnin ganga nú í Hríseyjarskóla eftir að hafa varið leikskólaárum og fyrstu bekkjum grunnskóla á Akureyri. Ég starfaði lengst af á öldrunarheimilinu Hlíð og í Krambúðunum báðum þegar ég bjó á Akureyri. Ég stunda nám við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri þar sem ég legg áherslu á byggðaþróun. Ég hlakka til að takast á við það krefjandi verkefni sem forval VG verður,“ segir Ásrún í tilkynningu.

Sambíó

UMMÆLI