KA og FH áttust við í lokaleik 13. umferðar Pepsi deildar karla í fótbolta í dag. FH-ingar þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að halda í við topplið Vals í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en KA menn sem sitja í 8. sæti deildarinnar hefðu getað fært sig upp í 6. sæti með sigri.
Ekkert mark var skorað í leiknum og sköpuðu liðin sér afar lítið af færum. Nýjasti leikmaður KA króatíski miðvörðurinn Vedran Turkalj stóð sig vel í vörninni og kom í veg fyrir að FH-ingar næðu að ógna af alvöru. Hættulegasta færi FH fékk Þórarinn Ingi Valdimarsson fyrir FH þegar hann skallaði boltann í þverslánna á marki KA. Steinþór Freyr og Emil Lyng fengu báðir góð færi til að skora fyrir KA menn en inn fór boltinn ekki.
KA menn sitja áfram í 8. sæti deildarinnar með 16 stig. Næsti leikur KA er gegn Fjölni í Grafarvoginum á þriðjudag.
UMMÆLI