NTC

Ivan Mendez sendir frá sér nýtt lag: „Hrárri tilfinningar sem vildu brjótast út“

Ivan Mendez sendir frá sér nýtt lag: „Hrárri tilfinningar sem vildu brjótast út“

Söngvarinn og lagasmiðurinn Ivan Mendez sendi frá sér á dögunum nýtt lag. Lagið heitir „Lust“ og er synthasprengja með retro blæ. Lagið er að mestu unnið og hljóðritað í Studio N19 en var síðan fullklárað undir handleiðslu Hauks Pálmasonar í hljóðverinu í Hofi.

Ivan segir lagið nokkuð frábrugðið því sem hann hefur verið að senda frá sér undanfarið en honum finnist gaman að prófa nýjar stefnur og fara út fyrir rammann.

„Ég er mikill rokkhundur í hjarta mér en á hinn boginn hef ég alltaf verið heillaður af hljóðgervlum og stórum hljóðheimum, ég held að þetta lag sé þarna einhverstaðar mitt á milli,“ segir hann.

Ivan hefur verið iðinn við útgáfur þetta árið en ásamt því að gefa út 5 laga smáskífu og tvö tónlistarmyndbönd með hljómsveit sinni GRINGLO gaf hann einning út ábreiðu af laginu „Wild world“ eftir Cat Stevens og lagið „Say you love me now“ í samstarfi við Stefán Elí.

„Ég byrjaði á þessu lagi fyrir tæpu ári síðan þegar ég var að ganga í gegnum tilfinningalega valkreppu. Síðan var lagið eiginlega bara týnt í skúffuni þangað til að ég fékk áminningu frá góðum vin, sem ég hafði sent lagið, um að klára það.“

Melódían var á sveimi í huganum á mér einn morguninn eftir kvöld af dágóðri tilfinningakreppu. Ég settist síðan niður með gítarinn og lagði niður hljómana. Þegar ég settist síðan við tölvuna seinna um kvöldið og fór að vinna í laginu lagði ég frá mér gítarinn og fór að fikta við hljómborðið, þá fór lagið að taka á sig allt aðra mynd.

Söngvarinn vinnur þessa dagana hörðum höndum við upptökur á nýrri smáskífu með GRINGLO en sú smáskífa verður gefin út ásamt þeirri fyrri sem ein breiðskífa í byrjun næsta sumars.

Lagið má finna á Spotify, iTunes, Deezer og öllum helstu veitum.

„Ég á það til að semja mikið af textum sem innihalda einhvern siðaboðskap eða heimspekilegar vangaveltur. Í þessu tilfelli voru hrárri tilfinningar sem vildu brjótast út.“

VG

UMMÆLI

Sambíó