Gæludýr.is

Ítríó spilar í fyrsta skipti á Akureyri – „Það er alltaf gaman að spila á Íslandi

Ítríó: Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir, Jón Þorsteinn Reynisson og Jónas Ásgeir Ásgeirsson.

Harmonikkutríóið; Ítríó kemur til með að spila í Hofi á morgun en þetta er í fyrsta skiptið sem tríóið kemur fram á Akureyri. Ásamt því að vera fyrstu íslensku harmonikkunemendurnir á háskólastigi í hátt í 30 ár þá er Helga Kristbjörg, einn meðlima Ítríó, fyrsta íslenska konan til að útskrifast með háskólagráðu í harmonikkuleik.

ítríó leitast eftir að opna augu fólks fyrir möguleikum harmonikkunnar og veita ungum tónlistarunnendum fyrirmynd og innblástur og sýna að harmonikkan er góður valmöguleiki í tónlistarnámi.

Margsinnis komið fram í Danmörku og á Íslandi
Harmonikku/bajantríóið Ítríó var stofnað árið 2015 í Kaupmannahöfn. Meðlimir þess eru Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir, Jón Þorsteinn Reynisson og Jónas Ásgeir Ásgeirsson. Þau eru núverandi og þáverandi nemendur prófessors Geirs Draugsvoll í Konunglega danska tónlistarháskólanum. Einnig hafa þau stundað saman kammernám hjá Andreas Borregaard, við sama skóla. Ítríó hefur margsinnis komið fram bæði í Danmörku og á Íslandi og unnið til fjölda verðlauna í keppnum erlendis.


„Ég valdi harmonikku til að vera öðruvísi en hinir krakkarnir“
Öll eru þau sammála um harmonikkan sé spennandi og skemmtilegt hljóðfæri. Það hafi verið mjög öðruvísi sem krakkar að velja þetta hljóðfæri fram yfir önnur algeng hljóðfæri eins og píanó eða gítar en öll hafi þau verið heilluð af harmonikkunni.
„Ég valdi harmonikku til að vera öðruvísi en hinir krakkarnir sem spiluðu flestir á fiðlu eða píanó. Svo var fyrsti kennari minn, Guðmundur Samúelsson, sérstaklega sannfærandi og gaf af sér mikla ástríðu á hljóðfærinu,“ segir Jónas um harmonikkuvalið sem barn. Helga segir jafnframt frá því að hún hafi sótt árlega hljóðfæra kynningu tónlistarskólans á Ísafirði sem barn og þar hafi henni fundist harmonikkan skemmtilegasta og fallegasta hljóðfærið af þeim öllum.
„Ég byrjaði á píanó, en svo var eitthvað spennandi við harmonikkuna. Ég held að það hafi aðallega verið það að ég leit mikið upp til bróður míns og hann hafði spilað á harmonikku í nokkur ár áður en ég byrjaði,“ segir Jón Þorsteinn um hvernig hann skipti píanóinu út fyrir nikkuna.

Harmonikkan vekur áhuga og undrun á Íslandi
Öll hafa þau orð á því að harmonikkan sé ekki mjög áberandi á Íslandi. Það eru ekki margir sem kunna á þetta flókna hljóðfæri og þá sérstaklega ekki meðal yngri kynslóðarinnar. „Það er alltaf gaman að spila á Íslandi. Maður upplifir alveg mikinn áhuga og vissa undrun. Þar sem klassísk harmonikka er á margan hátt allt annað fyrirbæri en hin hefðbundna harmonikka hljómar hún aðeins öðruvísi. Margir vissu einfaldlega ekki að harmonikka gæti hljómað svona eða spilað svona tónlist!“ segir tríóið um hvernig það er þegar það kemur fram á Íslandi.

Mun harmonikkan verða vinsæl á ný?
Tríóið telur það nokkuð víst að harmonikkan verði vinsæl aftur en þó á öðrum forsendum. Þau telja tíma harmonikkunnar í ballsölum liðinn en að öllum líkindum fari hún að birtast meira í klassískum tónleikasölum og tónlistarhátíðum. „Klassísk harmonikka er einungis búin að þróast í rúmlega hálfa öld en hefur þegar haslað sér völl víða. Það er bara tímaspursmál hvenær hún mun verða staðall í sígilda íslenska tónlistarlífinu. Okkar markmið er að flýta fyrir þeirri þróun,“ segja þau.

Frá Japan til gömlu Sovétríkjanna
Á tónleikunum verða flutt samtímaverk sem samin eru sérstaklega fyrir þrjár harmonikkur, allt frá Japan, til gömlu Sovétríkjanna og Íslands. Einnig mun bregða fyrir leiftrandi fjörugri þjóðlagatónlist og rómantískum orgelsvítum og munu þau einnig frumflytja á Íslandi, verk eftir tónskáldið Finn Karlsson. „Það er auðvitað nokkuð sérstakt að spila á þrjár harmonikkur. Fyrir utan þær venjulegu áskoranir sem fylgja samspili þá geta þrjú eins hljóðfæri hljómað mjög einsleit til lengdar. Þess vegna verðum við að vinna mikið með hljóðmyndun og samblöndun hljómsins,“ segir tríóið, spennt fyrir því að spila í fyrsta sinn á Akureyri á morgun.

Viðtalið birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 14. júní 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó