Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir er skautari frá Skautafélagi Akureyrar sem undanfarið hefur keppt á fjölmörgum mótum víðsvegar um Evrópu og náð mjög góðum árangri.
Listhlaup á Íslandi hefur tekið svakalegum framförum á síðastliðnum árum en stelpur sem keppa fyrir hönd Íslands erlendis hafa aldrei náð jafn góðum árangri og nú. Þetta sýnir Ísold og sannar, en hún er aðeins 10 ára gömul.
Hérlendis keppir hún í flokknum 12 ára og yngri A, ásamt því að vera hluti af hópi ungra og efnilegra hjá Skautasambandi Íslands.
Eins og Kaffið greindi frá þá sigraði Ísold alþjóðlegt mót í Búdapest í byrjun desember, þar sem hún keppti á móti 27 öðrum stúlkum. Fréttina má sjá hér.
Hún lét þó ekki þar við sitja og sigraði Grand Prix Bratislava, sem hún keppti á aðeins tveimur vikum síðar. Þar endaði hún með 41,98 stig en þetta var sjötta mótið sem hún tók þátt í erlendis á nokkrum mánuðum.
Keppnisferðalag Ísoldar hófst í Slóvakíu, þar sem hún æfði síðustu mánuði og hóf keppni á Grand Prix SNP Banská Bystrica þar sem hún hafnaði í 1.sæti af 24 keppendum.
Næst á eftir var ferðinni heitið til Slóveníu þar sem Ísold keppti á Skate Celje og hafnaði enn og aftur í 1.sæti, ásamt því að bæta sitt eigið stigamet, með 38,89 stig. Það verður að teljast frábær árangur þar sem Ísold var með glænýtt prógramm og keppti á móti 36 stúlkum frá 9 þjóðum.
Þriðja mót Ísoldar var síðan Innsbrucker Eislaufverein í Austurríki, aðeins einum degi eftir síðasta mót og því var nóttin nýtt til þess að keyra á milli. Keppniskröfurnar á þessu móti voru lægri en í hinum keppnunum og því voru tveir aldursflokkar látnir keppa saman. Ísold lenti samt sem áður í 1.sæti með 35 stig.
Santa Claus Cup í Búdapest var fjórða mót Ísoldar en þar endaði hún einnig í 1.sæti. Fimmta mótið var svo minniháttar mót í Slóvakíu, en þjálfarinn hennar Iveta Reitmayerova sem er einnig frá Slóvakíu, vildi að hún tæki þátt og reyndi við tvöfaldan axel í keppni. Fyrir 15 árum síðan hafði engin íslensk stúlka lent tvöfaldan axel, þó svo að í dag sé það orðið mun algengara, þó reyna fáar við hann í keppni. Ísold tókst þó að lenda Axelinn en hann var þó ekki alveg jafn langur og hann átti að vera, e. underrotated. Hún endaði með 42,54 stig og fyrsta sætið.
Þessi árangur Ísoldar er mjög góður og sá besti sem sést hefur hérlendis frá stúlku á hennar aldri í íþróttinni. Það er greinilegt að keppnir erlendis veita skauturum mikilvæga reynslu og forystu í listhlaupinu, enda er íþróttin einstaklingskeppni þar sem stress á keppnisdegi getur eyðilagt allan undirbúning.
Það verður gaman að fylgjast með þessum efnilega skautara áfram og öllum þeim mótum sem hún kemur til með að taka þátt í. Til hamingju Ísold!
UMMÆLI