Gæludýr.is

Íslenskur hálendingur rannsakar þjóðaréttMynd og frétt: Unak.is

Íslenskur hálendingur rannsakar þjóðarétt

Rachael Lorna Johnstone er prófessor við Lagadeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og hefur starfað við háskólann frá árinu 2003. Rachael fékk nýverið Nordforsk-styrk til að hefja rannsókn á sjálfsákvörðunarrétti nýlendna, fyrrverandi nýlendna og frumbyggjaþjóða á eignarhaldi skjalasafna sem tengjast sögu þeirra. Rannsóknarverkefnið mun síðan fjalla um réttindi Inúíta, Sama og Íslendinga um að fá afhent skjöl um eigin sögu.

Kennir grunnreglur þjóðaréttar áður en hún aftengir þær

Rachael rannsakar þjóðarétt og sér í lagi hvernig ólíkir aðilar á Norðurslóðum vinna saman. „Ég nálgast verkefnin sem andstæðingur nýlenduveldisins og set spurningamerki við ríkisvaldið. Ég hef birt greinar um hernám nýlenda og takmörk afnýlenduvæðingar, réttindi frumbyggja til lands og auðlinda, stjórnarhætti jarðvinnsluiðnaðar, umhverfisvernd, mannréttindi, ríkisábyrgð og stefnur á Norðurslóðum,“ segir Rachael.

Rachael kennir mestmegnis stúdentum í Heimskautarétti á meistarastigi en einnig grunnnemum í lögfræði: „Ég stend sjálfa mig að því að kenna grunnnemum grunnreglur þjóðaréttar bara til að aftengja þær í framhaldsnáminu.“ Auk þjóðaréttar, kennir Rachael námskeið um réttindi frumbyggja, mannréttindi og samanburðarrétt.

Lítur á sig sem hálending

Rachael fæddist í Glasgow í Skotlandi en fluttist til Thurso í Norður-Skotlandi þegar hún var sex ára og lítur því á sig sem hálending. Hún snéri aftur til Glasgow til að nema lögfræði og tók meistaragráðu í Brussel í Belgíu áður en hún hélt til Toronto í Kanada í doktorsnám.

„Það var svo Mikael M. Karlsson heimspekiprófessor sem spurði mig hvort ég hefði áhuga á að hjálpa til við að byggja upp nýja lagadeild við háskóla á norður Íslandi. Svarið mitt var auðvitað nei því ég þyrfti að klára doktorsnámið. En svo hugsaði ég málið og taldi það gagnlegt mínum ferli að fá smá akademíska reynslu og tók stöðu aðjúnkts til eins árs,“ segir Rachael um ákvörðunina um að flytja til Akureyrar.

Vill hvergi annarsstaðar búa – samt búin að fá nóg af snjómokstri

Rachael hefur búið á Akureyri frá 2003 með hléum vegna rannsóknarleyfa erlendis: „Ég var spurð að því hvar ég myndi vilja búa ef ég gæti valið hvað sem er. Eftir mikla umhugsun svaraði ég að ég myndi hvergi annarsstaðar vilja vera en akkúrat hér á Akureyri. Mig langar að eldast hér – allavega á sumrin. Ég þyrfti þó að taka löng vetrarfrí á hlýrri stöðum því ég er gersamlega búin að fá nóg af því að moka snjó,“ segir Rachael að lokum.

Þessi umfjöllun er hluti af kynningu Háskólans á Akureyri: Vísindafólkið okkar – Sjá umfjöllun á Instagram

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó