NTC

Íslensk bíómynd tekin upp á Norðurlandi

             Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir myndinni Svanurinn

Svanurinn sem nú er í sýningum í bíóhúsum landsins og er byggð á skáldsögu Guðbergs Bergssonar, var nánast að öllu leyti tekin upp í Svarfaðardal en þaðan er Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri myndarinnar ættuð.

„Í grunninn er þetta saga um níu ára stelpu, leikin af Grímu Valsdóttur, sem er send í sveit um sumartíma til fjarskyldra ættinga, og flækist þar inn í líf fullorðna fólksins, ekki síst í drama sem er í gangi hjá 23 ára heimasætunni á bænum sem Þuríður Blær Jóhannsdóttir leikur,“ segir Ása. „Myndin er í raun um þær báðar, og hvernig þær fullorðnast á ólíkan hátt þetta sumar. Þriðja aðalhlutverkið í myndinni er svo í höndum Þorvaldar Davíðs Kristjánssonar, en hann leikur nokkuð dularfullan vinnumann á bænum. Ingvar E. Sigurðsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir leika svo bóndahjónin.“

Ása sagðist alltaf sjá fyrir sér Norðurlandið þegar hún las bókina og fannst það ekki koma annað til greina en að myndin yrði tekin upp þar. Ása nefndi þá að Svarfdælingar og Dalvíkingar væru svo einstaklega hjálpsamir og gestrisnir. „Allir lögðu hönd á plóg og hjálpuðu okkur að gera þessa mynd. Þeir eiga svo sannarlega mikið í henni, enda frumsýndum við myndina fyrst þar og svo fyrir sunnan.“

Ása lærði kvikmyndagerð í Columbia háskólanum í New York. Hún hefur skrifað og leikstýrt þó nokkrum stuttmyndum, og ber þá helst að nefna myndirnar Ástarsaga og Þú og ég. Svanurinn er hennar fyrsta mynd í fullri lengd.

Sambíó

UMMÆLI