Íslenska kvennalandsliðið fer vel af stað á HM en íslensku stelpurnar unnu öruggan 7-2 sigur á Rúmeníu í Skautahöll Akureyrar en leiknum lauk nú rétt í þessu.
Flosrún Vaka Jóhannesdóttir opnaði leikinn með marki á 6.mínútu og nokkrum sekúndum síðar tvöfaldaði Sunna Björgvinsdóttir forystuna. Silvía Rán Björgvinsdóttir sá svo til þess að Ísland leiddi með þrem mörkum gegn engu eftir fyrsta leikhluta.
Silvía Rán skoraði annað mark sitt og fjórða mark Íslands eftir hálftíma leik og fleiri urðu mörkin ekki í öðrum leikhluta.
Í þriðja leikhluta sýndi rúmenska liðið smá lífsmark og minnkaði muninn í 4-1. Þær Eva María Karvelsdóttir og Karen Þórisdóttir svöruðu með tveim mörkum á skömmum tíma. Rúmenía klóraði svo í bakkann undir lokin en Birna Baldursdóttir átti lokaorðið. Lokatölur 7-2 fyrir Íslandi.
Heldur betur góð byrjun hjá íslensku stelpunum. Þær voru vel studdar af fjölmörgum áhorfendum sem fylltu pallana í Skautahöll Akureyrar.
Markaskorarar Íslands: Silvía Rán Björgvinsdóttir 2, Sunna Björgvinsdóttir 1, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 1, Eva María Karvelsdóttir 1, Karen Þórisdóttir 1, Birna Baldursdóttir 1.
Markaskorarar Rúmeníu: Alina Oprea 1, Magdolna Popescu 1.
Sjá einnig
UMMÆLI