Framsókn

Innhverft smáspjall

Öll höfum við heyrt eða lesið um hvernig fólk getur haft innhverfan persónuleika (introvert) eða úthverfan persónuleika (extrovert). Sjálfsagt erum við flest blanda af hvorutveggja, njótum þess að vera með öðrum en þurfum líka tíma til einveru, mismikinn að sjálfsögðu. Við erum hópdýr en sum okkar eru meiri hluti hjarðarinnar en aðrir. Ég leyfi mér að fullyrða að öll þurfum við á öðrum að halda, líka eftir að við erum orðin fullorðin, við þurfum félagslegan stuðning, ást, snertingu og umhyggju, svo einfalt er það.

IMG_6687

Ég hélt lengst af að ég væri mjög úthverf manneskja, ég á jú fremur auðvelt með að tjá mig og hef líklega það sem talið eru vera góðir samskiptahæfileika. Ég reyni að vera góður hlustandi og ég hef ákaflega gaman af því að heyra fólk segja frá því hvernig það hugsar, hvernig því líður og hvernig það upplifir veröldina.

Ég verð þó alltaf meira og meira innhverf með árunum, mér finnst gott að umgangast fáa og mér finnst gott að vera ein með sálfri mér. Svo gott að það jaðrar við að vera truflandi að þurfa að fara mikið út úr húsi. Mig langar samt að hitta fólkið mitt, fjölskyldu og vini miklu oftar en ég geri. Mig langar að eiga djúp og innihaldsrík samskipti, tala um lífið, dauðann, tilfinningarnar og það sem skiptir okkur raunverulega máli. Mig langar að fara á fleiri tónleika, hlusta og njóta. En það sem mér finnst erfiðast er að hitta þá sem ég þekki ekki mikið og þurfa að taka þátt í smáspjalli.

Smáspjall eða „small talk er mikil list.  Ég veit aldrei hvernig ég á að svara spurningum eins og „hvernig hefurðu það”, svo ég tali nú ekki um „er ekki nóg að gera?”. Ég er fáránlega mikill streitari og svarið mitt gæti verið á þessa leið „jú ég hef það gott einmitt þessa stundina en rétt áðan þá varð mér hugsað til þess að hundurinn minn hefði verið lengi einn heima og þá hafði ég það ekki svo gott. Í gær hafði ég það ágætt fram eftir morgni en eftir hádegi var ég mjög þreytt og hafði það ekki sérstaklega gott”. Enginn vill svona svör.

Hið staðlaða svar er: „Bara fínt, takk fyrir”. Í smáspjalli er ekki gert ráð fyrir hörmungarsögum eða vanlíðunarsvari, ekki löngu máli eða tilfinningasemi. Og það er alltaf nóg að gera munum það. Svör eins og  „nei veistu það er bara djöfull og dauði í vinnunni hjá mér, líklega verður mér bara sagt upp”, eiga ekki við í smáspjalli. Smáspjall er svolítið eins og Instagram, það sýnir glansmynd af okkur sjálfum, yfirborðskennda og grunna. Smáspjallið er mjög orkukrefjandi, það er flókið og hentar sko alls ekki öllum. Áreiðanlega myndi mér bregða ef einhver sem ég þekki ekki mikið myndi snúa sér að mér og spyrja „Inga, er hamingjan viðhorf eða ástand?” en mikið óskaplega væri það hressandi.

Það má segja smáspjallinu til varnar að það gefur tækifæri til að eiga orðaskipti  við þá sem maður hefur oft ekki séð lengi, fólk sem manni þykir vænt um en kannski hefur misst sjónar á. Samskiptaleiðir alnetsins gera þetta vissulega líka og þeir sem hafa knýjandi þörf fyrir að segja eitthvað meira, þeir skrifa pistla. En við megum þó ekki gleyma því að við megum alveg birta dýpri mynd af okkur sjálfum í daglegum samskiptum líka.

Innhverfur heimsins, þreytast meira á mannamótum en þeir úthverfu, þeir þurfa lengri tíma til einveru og hvíldar í sjálfum sér en það þýðir ekki að þeir vilji ekki eiga samskipti. Þeir vilja bara dýpri og innilegri samskipti en smáspjall og froðusnakk (sem er sko magnað orð). Þeir þurfa meiri tíma, tíma sem fáir virðast eiga en allir þrá.

Setningin „við verðum að fara að hittast” má ekki bara verða frasi, við þurfum að hittast í alvöru og eiga samskipti sem henta bæði úthverfum og innhverfum.  Taka í spila, spjalla í einlægni, drekka kaffi og elda saman mat.

Góða helgi

Sambíó

UMMÆLI