Ingi Steinar er nýr svæðisstjóri Arion Banka á Norður- og Austurlandi

Ingi Steinar Ellertsson hefur verið ráðinn svæðisstjóri Arion banka á Norður- og Austurlandi. Hann mun jafnframt gegna stöðu útibússtjóra á Akureyri. Ingi tekur við starfinu af Guðmundi Ólafssyni sem á sama tíma tekur við nýju starfi forstöðumanns þjónustustýringar fyrirtækja á viðskiptabankasviði.

Ingi Steinar hefur starfað sem forstöðumaður fyrirtækjaviðskipta hjá Arion banka á Norður- og Austurlandi frá árinu 2016. Frá árinu 2011 leiddi hann uppbyggingu sjóða- og lífeyrissviðs hjá T Plús hf. á Akureyri. Áður starfaði Ingi á eignastýringarsviði Íslenskra verðbréfa hf., við verkefnastjórnun hjá Akureyrarbæ og á fyrirtækjasviði Tryggingamiðstöðvarinnar.

Ingi Steinar er 39 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í fjármálum og stefnumótun frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann hefur jafnframt lokið prófum í verðbréfaviðskiptum og vátryggingafræðum.

Arion banki starfrækir sex útibú á Norður- og Austurlandi. Þau eru á Akureyri, Blönduósi, Egilsstöðum, Sauðárkróki, Siglufirði og Ólafsfirði en auk þess starfrækir bankinn fjarvinnslu á Siglufirði og á Akureyri, m.a. tengda lífeyrisþjónustu bankans. Alls starfa ríflega 60 einstaklingar hjá Arion banka á svæðinu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó