NTC

Icewear tekur við Goðafoss markaði

Icewear tekur við Goðafoss markaði

Icewear hefur frá og með 1. ágúst tekið við veitinga- og verslunarrekstri þjónustumiðstöðvarinnar við Goðafoss í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Goðafoss er hluti af Demantshringnum og hefur verið einn vinsælasti áningarstaður ferðafólks á Norðurlandi. Fossinn er í Skjálfandafljóti í Bárðardal og er á meðal stærstu fossa landsins. Goðafoss skipar sess í sögulegu samhengi en sagt er að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi kastað hinum heiðnu goðum í fossinn eftir að hafa ákveðið að Íslendingar skyldu taka upp kristindóm og hafna heiðnum siðum.

Icewear mun áfram bjóða innlendum og erlendum gestum upp á kaffisölu og veitingar ásamt úrvali af fatnaði og gjafavöru sem tengist sögu Íslendinga og íslenskri náttúru.

„Reksturinn hefur verið í góðum höndum og mikil uppbygging á staðnum undanfarin ár og við ætlum að leggja okkur fram við að gera jafn vel og helst enn betur fyrir ferðaþjónustuna. Það er líka alveg tilvalið fyrir Akureyringa og nærsveitafólk að fá sér stuttan bíltúr í gegnum göngin og njóta þess að vera í þessu magnaða umhverfi. Veitingaaðstaðan er með útsýni yfir fossinn og það er notalegt að horfa yfir svæðið með góðan kaffibolla og kökusneið,“ segir Aðalsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Icewear.

Drífa ehf rekur verslanir Icewear, Icewear Magasín, Arctic Explorer og Icemart ásamt vefverslun Icewear.is. Verslanir Drífu ehf telja í dag nítján og eru staðsettar hringinn í kring um landið, flestar þeirra á höfuðborgarsvæðinu en einnig tvær á Akureyri, Vík í Mýrdal, Vestmannaeyjum og nú í Bárðardalnum.

Sambíó

UMMÆLI