Íbúakosning um breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar fer fram með rafrænum hætti í þjónustugátt Akureyrarbæjar dagana 27.-31. maí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjarins í dag.
Þar segir að meirihluti bæjarstjórnar hafi samþykkt að kosningin verði ráðgefandi og að valið verði á milli þriggja kosta:
- Óbreytt aðalskipulag sem kveður á um að byggingar séu almennt ekki hærri en 4 hæðir.
- Síðasta tillaga auglýst af bæjarstjórn þar sem hámarkshæð húsa er 25 m.y.s. sem felur í sér að húsin geta verið 6-8 hæðir að hámarki.
- Málamiðlunartillaga þar sem hámarkshæð húsa er 22 m.y.s. sem felur í sér að húsin geta verið 5-6 hæðir að hámarki, þó aldrei hærri en 4 hæðir syðst á reitnum.
„Áður hafði bæjarstjórn samþykkt að vísa málinu í íbúakosningu í samræmi við samstarfssáttmála sem var gerður í september.
Svæðið sem um ræðir afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Íbúar hafa sýnt málinu mikinn áhuga og bárust alls um 100 athugasemdir við þá tillögu sem var auglýst í janúar.
Þetta verður í fyrsta sinn sem Akureyrarbær heldur rafræna íbúakosningu með þessum hætti og er markmiðið að sem flestir íbúar taki þátt. Rík áhersla verður lögð á að kynna málið vel og útskýra þá valkosti sem standa til boða,“ segir í tilkynningu.
UMMÆLI