NTC

Í krafti stærðar sinnar

Í krafti stærðar sinnar

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar

Á Akureyri eru öll lífsins gæði. Það vita þeir sem þar búa, hafa búið þar eða notið tímans á Akureyri í vetrar-, páska- og sumarfríum þar sem samfélagið tekur vel á móti öllum sem hér vilja vera. Hér er öflugur háskóli sem styrkt hefur verulega samfélagið á Akureyri. Það er sérlega mikilvægt því hagsæld framtíðarinnar grundvallast á menntun og rannsóknum.

Nú eru í gangi viðræður um hugsanlega sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Markmiðið með sameiningu liggur fyrir, það á að auka gæði og framboð náms, efla byggðahlutverk háskólans, auka verðmæti sem háskólarnir skapa í samstarfi við samfélög og atvinnulíf um allt land, efla háskólasamfélagið og fræðastarf á landsbyggðinni. Það er samhljómur meðal skólanna um að til verði nýr stór og sterkur opinber háskóli á Akureyri, þar sem öll stjórnsýsla verður hér.

Samtalið er á forsendum skólanna og því verður niðurstaðan alltaf öflugara háskólastarf ef af sameiningu verður. Sameinaður háskóli yrði sá næst-stærsti á landinu og á að vera í stöðugri sókn í krafti stærðar sinnar.

Spurningar vakna

Fýsileikakönnunin sem var unninn sem grunnurinn í þessum samræðum skildi augljóslega og eðlilega eftir fleiri spurningar en svör. Enda var henni ekki ætlað að leiða til lykta sameiningarviðræður heldur var hún forskrefið fyrir það að ákveða hvort tilefni væri til að halda samtalinu áfram. Það hafa skólarnir sjálfir ákveðið að gera og fer nú fram umræða meðal stærri vinnuhópa um sameiningaráformin. Samtalið mun og á að eiga sér stað í samfélögunum sem sameinast.

Þær spurningar sem vakna og sú hræðsla sem endurspeglast í umræðunni eru eðlilegar. Það sem einkennir þó umræðuna er að hún er oft á tímum mörgum skrefum á undan því skrefi sem vinnan stendur akkurat í. En það er mikilvægt að gagnrýnar spurningar komi fram á þessum tímapunkti svo þeim verði svarað í vinnunni sem framundan er.

Háskólar framtíðarinnar

Stóra spurningin í þessu máli er hvernig háskólar nútímans munu mæta áskorunum framtíðarinnar. Við eigum það til að vera föst í hugmyndum um fjarnám og staðnám, þegar framtíðin kallar á aðrar lausnir í formi sveigjanlegra náms. Það sem liggur einnig fyrir í samtali háskólanna er ríkur vilji til að byggja upp öflugt námssamfélag sem passar inn í kröfur 21. aldarinnar.

Sýnt hefur verið fram á að þar sem einstaklingar stunda nám eru meiri líkur að þeir velji búsetu til frambúðar. Því er mikilvægt að fram fari umræða um hvernig hægt sé að efla námssamfélagið á Akureyri svo fólk velji að búa hér.

Rannsóknir efla samfélögin

Lengi hefur verið gagnrýnt hve lítið aðgengi fræðimenn sem starfa við háskóla á landsbyggðinni hafa að rannsóknarsjóðum. Nú hefur ráðherra háskólamála, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, tilkynnt um 250 milljóna króna stofnframlag til rannsóknasjóðs verði af sameiningunni.

Þetta er risastórt skref fyrir fræðasamfélagið utan höfuðborgarsvæðisins þar sem að um í fyrsta skipti er um að ræða stórt framlag til rannsókna í fræðasamfélaginu utan höfuðborgarsvæðisins.

Höfuðstaður Norðurlands

Akureyri er höfuðstaður Norðurlands. Þar dugir ekki eitt að byggja upp gott og öflugt háskólasamfélag heldur verður meira að fylgja til að samfélagið geti haldið áfram að blómstra. Atvinnutækifæri eru það sem ungt fólk lítur helst til þegar það velur sér búsetu til framtíðar, sömuleiðis þarf að vera gott umhverfi til að byggja upp fjölskyldu og gott aðgengi að annarri þjónustu eins og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Allt eru þetta þættir sem stjórnvöld eiga og geta stutt betur við.

Endi viðræður svo að á Akureyri verði til næst stærsti háskóli landsins verður höfuðstaðurinn raunverulegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið og enn stærri segull fyrir ungt fólk til að flytja norður til að njóta allra lífsins gæða sem hér fyrir eru.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Sambíó

UMMÆLI