NTC

Hvert á að senda reikninginn?

Guðmundur H. Sigurðarson skrifar

Nú er alvöru skuldbinding að detta í hús en hún snýst um samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Miðað við Parísarsamkomulagið verður það líklega krafa um 40% samdrátt fyrir 2030. Ljóst er að einhver kostnaður mun fylgja nauðsynlegum aðgerðum til að minnka þennan útblástur.

Skoðum aðeins Akureyri og Eyjafjörð og hver nálgunin á málin er þar. Í staðinn fyrir að hengja haus, draga lappirnar og velta fyrir sér aðgerðum hafa Norðanmenn nú þegar vaðið í að framkvæma lausnir í umhverfismálum. Lítum á nokkrar lausnir og áhrif þeirra:

Molta: Það er ekki sama hvernig lífrænn úrgangur er meðhöndlaður því ef hann er einfaldlega urðaður gefur hvert kg af slíkum úrgangi af sér 1,6 kg af gróðurhúsaloftegundum við rotnun á urðunarstað. Í Eyjafirði er hinsvegar starfrækt verksmiðjan Molta sem tekur við lífrænum úrgangi og framleiðir jarðvegsbæti með miklum umhverfisávinningi. Með stýrðu niðurbroti minnkar moltugerðin útblásturinn niður í einn fimmta af því sem losnar við urðun. Molta getur því árlega minnkað losun gróðurhúsaloftegunda um allt að 15 þúsund tonn.

Metan: Norðurorka ákvað, árið 2014, að virkja gamla urðunarstaðinn á Glerárdal til metanframleiðslu. Með því að sækja metanið og hreinsa það og nýta á farartæki næst mikill umhverfisávinningur. Þegar metanfarartækjum á Akureyri hefur fjölgað getur metanframleiðslan árlega minnkað losun gróðurhúsaloftegunda um allt að 10 þúsund tonn.

Lífdísill: Frá 2010 hefur verið starfrækt lífdísilverksmiðjan Orkey á Akureyri sem framleiðir lífdísil úr steikingarolíu og fitu. Þegar fyrirhuguð stækkun verksmiðjunar verður komin í gagnið getur lífdísilframleiðslan árlega minnkað losun gróðurhúsaloftegunda um allt að 2 þúsund tonn.

Skógrækt: Skógi hefur víða verið plantað á Akureyri til að binda koltvísýring en líka til að að skapa skjól og falleg útivistarsvæði. Þegar klárað verður að gróðursetja í þau svæði sem tekin hafa verið frá undir skógrækt munu skógar á Akureyri árlega binda yfir 5 þúsund tonn.

Bara þessi verkefni munu á endanum minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um yfir 30 milljón kíló af koltvísýringi á hverju einasta ári. Það samsvarar árlegum útblæstri 18 þúsund bifreiða. Þessi verkefni hafa kostað blóð, svita og tár og því miður er ekki komið innlent kerfi sem verðlaunar kolefnisávinninginn. Það verður að teljast mjög sérstakt því eins og við þekkjum er kolefnisgjald lagt á hvern olíulítra sem við setjum á bíla. Ef þú eykur losun um kíló af koltvísýringi borgar þú sem sagt um 2 kr. en ef þú minnkar útblástur færðu ekki neitt. Til hvers er verið að leggja á kolefnisgjald ef það er ekki nýtt til að styðja við verkefni sem draga úr útblæstri, alveg eins og veggjöld eru lögð á bensín og dísil til að borga vegaframkvæmdir? Vissulega skila þær krónur sér ekki alltaf að fullu til vegagerðar en þó alla vega eitthvað. Miðað við útblástursminnkun ætti eðlileg greiðsla til Eyfirðinga því að vera um 60 milljónir á ári. Þó að það kæmi ekki allt myndi það sannarlega létta uppbyggingu og rekstur á þessum mikilvægu umhverfisverkefnum. Málið er bara einfaldlega þannig að ef ofangreind framleiðsla legðist af fyrir norðan og Akureyringar myndu ryðja skóg í bræði sinni sæti Ísland uppi með allt að 30 milljón kíló af aukakoltvísýringi í bókhaldinu sem erfitt væri að hlutleysa fyrir árið 2030.
Spurningin er því: Hvert eiga Eyfirðingar að senda reikninginn?

Greinin er aðsend – skoðanir þurfa ekki að endurspegla skoðanir ritstjórnar Kaffisins.

Sambíó

UMMÆLI