NTC

Hvernig viljið þið hafa þetta? – Við viljum hlusta

Hvernig viljið þið hafa þetta? – Við viljum hlusta

Þetta er yfirskrift fundaraðar sem við í VG á Akureyri erum að fara af stað með á sunnudag. Við viljum heyra hvað brennur á bæjarbúum og taka það með sem nesti í stefnumótun fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí næstkomandi.

Nærþjónustan, sem sveitarfélög veita, er gríðarlega mikilvæg þegar kemur að daglegu lífi fólks. Lýðheilsa á alltaf að vera í forgrunni þegar við skipuleggjum hverfi, hugum að virkum ferðamátum og skipuleggjum tómstundastarf svo fátt eitt sé nefnt. Umhverfis- og loftslagsmál, vá sem var okkur fjarlæg fyrir örfáum árum, er nú komin inn í forstofu. Sveitarfélög þurfa að standa við skuldbindingar og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að mæta þessari ógn. Menntun er grunnur að því að skapa jöfnuð í samfélaginu okkar og efla börnin okkar til góðra verka. Huga þarf að starfsumhverfi kennara og passa uppá að ein mikilvægasta stétt landsins endist og eflist í starfi. Menning gefur lífinu lit, færir ólíka hópa nær hvor öðrum og er oft sameiningartákn samfélaga, höldum vel utan um okkar blómlega menningarlíf. Hvernig getur Akureyrarbær tekið betur á mót aðfluttum einstaklingum og boðið þá velkomna í samfélagið okkar. Upplýsingagjöf, gagnsæi og samráð er mikilvægur partur af stjórnsýslu. Velferðarmálin eru eitt af stóru málunum í akureysku samfélagi og mikilvægt að raddir þjónustuþeganna fái að heyrast. Hugum vel að þeim ólíku hópum sem skapa samfélagið okkar og mætum þörfum þessara hópa. Skoðum samgöngumál í víðu samhengi og gleymum ekki að Hrísey og Grímsey eru hverfi hjá Akureyrarbæ. Út frá samgöngum og vellíðan bæjarbúa þarf að huga vel að skipulagi bæði við byggingu nýrra hverfa og þegar kemur að þéttingu byggðar.

Komið og spjallið við okkur um hin ýmsu málefni á næstu vikum. Nánari upplýsingar um fundi og staðsetningar má finna á facebooksíðu VG á Akureyri.

Frambjóðendur VG á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI