A! Gjörningahátíð

Hvernig umferð vilt þú sjá í göngugötunni?Göngugatan á Akureyri. Mynd: María Helena Tryggvadóttir/akureyri.is.

Hvernig umferð vilt þú sjá í göngugötunni?

Fyrir skipulagsráði Akureyrarbæjar liggur nú tillaga að breytingum á reglum um lokanir gatna í miðbænum. Tillagan felur í sér að göngugötunni verði lokað fyrir umferð vélknúinna ökutækja allan sólarhringinn í júní til ágúst með undaþágu fyrir ökutæki hreyfihamlaðra, slökkvi- og sjúkraliðs, og rekstraraðila í miðbænum vegna aðfanga. Fjallað er um málið á vef Akureyrarbæjar þar sem óskað er eftir viðbrögðum hagsmunaaðila og íbúa við tillögunni.

Athugasemdum og ábendingum má einnig skila á netfangið skipulag@akureyri.is eða bréfleiðis til þjónustu- og skipulagssviðs, Ráðhúsi, Geislagötu 9, 600 Akureyri, til og með 18.maí 2023.

„Hvað finnst þér? Á að vera hægt að keyra um göngugötuna á kvöldin eftir kl. 19 eða ætti hún að vera alfarið lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja yfir sumarmánuðina? Ætti hún e.t.v. að vera alfarið opin fyrir umferð vélknúinna ökutækja? Nú er um að gera að tjá sig um málið og koma með góðar ábendingar á samráðsvefnum Okkar Akureyri,“ segir í tilkynningu á vef bæjarins.

Tillagan felur í sér svofellda breytingu á 2. gr. samþykktar Akureyrarbæjar um verklagsreglur fyrir tímabundnar lokanir gatna fyrir umferð vélknúinna ökutækja:

2.gr. Lokun göngugötu

Lokun göngugötu er eftirfarandi:

Júní, júlí og ágúst: lokað fyrir vélknúin ökutæki.

Aðgengi er á þeim tíma tryggt fyrir: P-merkta bíla fyrir hreyfihamlaða, ökutæki slökkviliðs og sjúkrabíla og rekstraraðila vegna aðfanga.

Lokunarmerki skal vera við Kaupvangsstræti.

Greinin var svohljóðandi áður:

2.gr. Lokun göngugötu

Lokun göngugötu er að lágmarki eftirfarandi:

Júní – fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 11 til 19

Júlí – alla daga frá kl. 11 til 19

Ágúst – fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 11 til 19

Lokunarmerki skal vera við Kaupvangsstræti.

VG

UMMÆLI

Sambíó