Útvarpsmaðurinn Rikki G lýsti upplifun sinni af lúsmýbiti í útvarpsþættinum Brennslunni á FM957 í morgun en Rikki eyddi helginni á Akureyri. Eins og margir aðrir kom hann útbitinn heim til sín. Til að svara spurningum um hvað hægt sé að gera til að fyrirbyggja lúsmýbit fengu þáttastjórnendur Brennslunnar til sín meindýrafræðinginn Guðmund Óla Scheving.
Sjá einnig: Lúsmý herjar á Norðurland
Í viðtali við Brennsluna segir Guðmundur að Íslendingar geti verið þakklátir fyrir það að hér á landi sé bara ein tegund af lúsmý því erlendis fyrirfinnist tugir tegunda. Flugan er rosalega lítil og stundum verða menn alls ekki varir við hana.
Hann segir að það sé álit vísindamanna að lúsmýið sé búið að vera til hér lengi, jafnvel áratugum saman. „Flugan var alltaf til úti í bithaganum hjá búfénaðinum. En svo gerist eitthvað, hún færir sig til. Norður, vestur, austur og út um allt“, segir Guðmundur.
Hvað er hægt að gera til að fyrirbyggja bit
Guðmundur segir að við þurfum einfaldlega að læra að umgangast lúsmýið. Hann er sjálfur að flytja inn sérstakt net frá Kína sem hann segir mjög gott til að halda flugum frá því að komast inn um glugga, en netið er fest á gluggan með frönskum rennilás. Eins segir hann að hátíðnihljóð fæli í burtu flugurnar og nú séu komin á markað sérstök hátíðnitæki sem eru fest utanhúss.
Guðmundur segir fólk eðlilega ekki vilja vera að spreyja á sig einhverju eitri sem fæli frá flugurnar og hann hafi því farið að kanna hvaða efni væri gott að nota. „Ég fann það út að úr afríska sólblóminu er unnið efni sem er ekki með neinu eitri í en allar flugur forðast það. Flugunum finnst vond lykt af því, en við finnum það ekki. En þetta er fáanlegt á spreyformi“.
Einnig mælir Guðmundur með því að sofa í náttfötum. Gott sé að draga sokkana upp yfir buxnaskálmarnar og hafa hneppt upp í háls.
UMMÆLI