NTC

Hver nennir ekki að fá meiri pening?

Pistillinn birtist fyrst í félagsblaði Félags verslunar- og skrifstofufólks.

Ingibjörg Bergmann skrifar:

Það hefur alltaf verið mér ráðgáta af hverju fólk hefur ekki meiri áhuga á réttindum sínum en raun ber vitni. Þá sérstaklega ungt fólk, á mínum aldri. Eða kannski ekki á mínum aldri lengur þar sem ég nálgast þrítugt mun hraðar en ég kæri mig um… en það er sífellt verið að minna ungt fólk á að kynna sér réttindi sín á vinnumarkaðnum og hjá stéttarfélögunum sínum en alltaf er það þessi meirihluti sem gerir það ekki.

Þegar ég var yngri og nálgaðist mína fyrstu vinnu óðfluga þá viðurkenni ég fúslega að ég vissi ekki hvað stéttarfélag var. Í einfeldni minni gerði ég ráð fyrir því að þetta væri eins konar steinsteypufélag sem sæi um að leggja gangstéttir bæjarins. Í stað þess að staldra við og velta fyrir mér hvort nafnið gæti verið vitlaust skilið hjá mér, þá velti ég því frekar fyrir mér af hverju það væri þörf á svona mörgum fyrirtækjum á litlu Akureyri til að leggja stéttir. Það var ekki einu sinni vísbending fyrir mig af hverju þau halda 1. maí heilagan, ég kom bara fyrir kökurnar og fríu pennana. Einum vinnumarkaði og einni háskólagöngu seinna er ég hér, búin að átta mig á því að orð hafa stundum fleiri merkingar en eina og að stéttarfélög koma yfirleitt ekki nálægt steypu.

Þrátt fyrir það að ég sé orðin aðeins reyndari á vinnumarkaði og í lífinu almennt en þegar ég var 16 ára, þá rámar mig aðeins í þann tíma. Ég, og eflaust krakkar nú til dags einnig, var alin upp við að það væri ekki sjálfgefið að fá vinnu. Ég þyrfti að vera dugleg og þakklát fyrir að þurfa ekki að dúsa í unglingavinnunni næstu þrjú sumur. Ég misskildi þessi heilræði svakalega og þorði því ekki að biðja um hærri laun eða betri kjör og aðstæður, í hræðslu minni við að missa vinnuna eða vera talin alltof frek fyrir manneskju á mínum aldri.
Þetta er skelfilegur misskilingur sem að ég efast ekki um að ungir krakkar í dag lenda í líka. Þú átt þinn rétt, óháð aldri og fyrri störfum, eða skort þar á. Þú verður að kynna þér þetta, því það gerir það enginn fyrir þig. Trúðu mér, þú átt bara eftir að græða á því.

Vissir þú að …
– Þú getur fengið ræktarkortið þitt, gleraugun þín, bílprófið þitt, skólagjöldin þín o.fl. endurgreitt að hluta til frá stéttarfélaginu þínu?

– Ef eitthvað bjátar á í vinnunni og þú þorir ekki, eða getur ekki talað við yfirmann þá er trúnaðarmaður í fyrirtækinu þínu sem þú getur talað við og hann er lögum bundinn að segja engum frá því sem á milli ykkar fer, óskir þú eftir því.

– Ef þú skilur ekki launaseðilinn þinn eða grunar að þú sért á of lágum launum getur þú alltaf leitað til stéttarfélagsins í síma eða persónu.

– 18 og 19 ára einstaklingar sem starfað hafa a.m.k. 6 mánuði (að lágmarki 700 vinnustundir) í sömu starfsgrein, eiga rétt á byrjunarlaunum 20 ára.

– Við 20 ára aldur er starfsreynsla metin að fullu við röðun í starfsaldursþrep (1800 stundir teljast ársstarf).

– Við mat á starfsaldri til launa veitir 22ja ára aldur rétt til næsta starfsaldursþreps fyrir ofan byrjunarlaun.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó