Hver getur teyst á smokkinn ef hann er settur á hausinn?

Hver getur teyst á smokkinn ef hann er settur á hausinn?

Orðin „eyðni“ og „smokkur“ voru mikið á milli tannanna á fólki árið 1987. Litið var á smokkinn sem helsta vopnið í baráttunni gegn HIV-sjúkdómnum þó sumir hefðu efasemdir um ágæti verjunnar.

Fullorðinn maður á Eyrinni, eins og hann var titlaður í Degi, hafði samband við blaðið í ársbyrjun 1987 vegna ummæla Reynis Valdimarssonar læknis um smokkinn nokkrum dögum fyrr. Í grein sem ber yfirskriftina Smokkurinn er ekki afgerandi vörn varar Reynir fólk við að leggja allt sitt traust á ílangan gúmmípokann. Þó vissulega væri hann liður í vörninni þyrfti fleira að koma til, t.a.m. breytt kynferðishegðun. „Hann [smokkurinn] nær nú tiltölulega skammt því það er vitað mál að undir vissum kringumstæðum vill hann gleymast eða er ekki rétt notaður“ segir Reynir í viðtali við Dag þann 28. janúar 1987.

Fullorðna manninum á Eyrinni var ekki alveg rótt og sá ástæðu til að koma athugasemdum á framfæri vegna greinarinnar. Þær birtust í Lesendahorni Dags þann 2. febrúar. Þó hann segðist ekki sjálfur hafa mikla reynslu af notkun smokksins hefði hann fram að þessu talið hann vera sæmilega örugga getnaðarvörn.

„Mér brá því nokkuð þegar ég las fyrirsögnina á fréttinni: „Smokkurinn er ekki afgerandi vörn“ hafða eftir Reyni Valdimarssyni lækni. í fréttinni kemur síðan skýringin, sem sagt að smokkurinn er ekki örugg getnaðarvörn vegna þess að „undir vissum kringumstæðum vill hann gleymast eða er ekki rétt notaður.“ Þykir nokkrum skrítið. Hver ætli geti svo sem treyst á smokkinn ef hann á engan smokk eða setur hann á hausinn á sér „þegar á hólminn er komið“ eins og stóð í fréttinni. Ég vildi bara koma þessu á framfæri þannig að menn hættu ekki að treysta á þetta verkfæri,” sagði maðurinn og vildi benda á að yfirleitt er að finna notkunarleiðbeiningar.“

Heimildir:

Grenndargralið.

Stefán Þór Sæmundsson. (1987, 28. janúar). Smokkurinn er ekki afgerandi vörn. Dagur, bls. 12.

Rétt notkun á smokkum [Lesendahornið]. (1987, 2. febrúar). Dagur, bls. 5.

Sambíó

UMMÆLI