Hver er framtíðarsýn Akureyrarbæjar í dagvistun ungra barna?

Linda Lárusdóttir skrifar:

Ljóst er að auknar kröfur eru frá foreldrum ungra barna um dagvistun fyrir börn frá 9 mánaða aldri. Hafa háværar raddir heyrst á meðal foreldra þar sem krafist er úrbóta á dagvistunarvanda en einnig um mikilvægi þess að foreldar hafi val um fleiri úrræði en dagforeldra. Í niðurstöðum á árlegri könnun sem fræðslusvið stóð fyrir í maí 2017 kom fram að um 70% foreldra barna sem nýttu sér þjónustu dagforeldra hefðu kosið leikskóla ef hann hefði staðið þeim til boða.

Það virðast flestir vera sammála um kosti þess að bjóða upp á fjölbreyttari dagvistunarúrræði fyrir yngstu börnin en kostnaðurinn er alltaf sá hluti sem strandað er á. Það er vitað mál að slíkar aðgerðir munu kosta fjármuni en það er hægt að fara hagkvæmari leiðir og opna litlar ungbarnadeildir innan leikskólanna. Þá væri möguleiki á að hafa sömu stjórnendur, nýta sama mötuneyti og sömu afleysingu og leikskólarnir en deildirnar þyrftu ekki endilega að vera í sama húsnæði. Gott einbýlishús í nágrenni við leikskóla væri jafnvel stórgóður kostur.

Það þyrfti ekki að opna nema eina til tvær slíkar deildir til þess að létta verulega á dagforeldrakerfinu og í raun leikskólunum líka þar sem oft er verið að hrúga of mörgum börnum inn í leikskólana til að koma inn börnum sem ekki hafa fengið pláss hjá dagforeldrum. Þá eru foreldrar orðnir langþreyttir á að komast ekki til vinnu og vera launalausir í einhverja mánuði eftir fæðingarorlof en fæstir mega við því. Svo að við tölum nú ekki um áhrifin sem það hefur á vinnuveitendur. Þetta hefur verið sérstaklega erfitt ástand undanfarin misseri og tími til komin að gera langtíma ráðstafanir.

Nú á sér mikil uppbygging stað í bænum og því hlýtur að fylgja fleira fólk og þar af leiðandi fleiri börn. Því miður virðist framtíðarsýn bæjarins í leikskólamálum ekki nægilega skýr. Það þarf eitthvað að gera fyrir yngstu börnin og foreldra þeirra. Það er ekki hægt að bíða endalaust og sjá hvort málin reddist ekki! Það er tímabært að Akureyarbær taki skrefið og bjóði upp á leikskólapláss fyrir börn frá 1 árs aldri og veiti þannig ásættanlega þjónustu fyrir yngstu börn bæjarins og foreldra þeirra.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó