<strong>Hver bar kaþólska kopar hálsmenið?</strong>

Hver bar kaþólska kopar hálsmenið?

Ummerki um veru hermanna á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni leynast víðar í jörðu en margan grunar. Akureyri er þar ekki undanskilin. Innan um glerbrot, kol og ryðgaða nagla sem finna má í umtalsverðu magni, leynast fágætari stríðsminjar og jafnvel persónulegir munir setuliðsmanna. Ein slík gersemi varð á vegi Varðveislumanna um nýliðna helgi – agnarsmátt hálsmen úr kopar með trúarlegum táknum á báðum hliðum og áhugaverða sögu í farteskinu.

Hálsmenið er 2 x 1 cm að stærð, með útlínur sem minna á töluna átta og upphleyptum myndum og bókstöfum beggja megin. Tilviljun réði því að Varðveislumenn komu auga á menið í blautri moldinni. Grænn litur koparsins, sem tilkominn er vegna veðrunar, kom þeim á sporið. Erfitt reyndist að greina tákn eða merkingar en þó lék strax grunur á að þarna væri annað hvort um hluta af rennilás að ræða eða hálsmen. Úrskurður fékkst þegar heim var komið og litli kopargripurinn var hreinsaður. Undan skítnum birtust María mey og Jesús Kristur í öllu sínu veldi.

Við tók rannsóknarvinna undir smásjá og á veraldarvefnum. Hún leiddi eitt og annað í ljós. Menið er heillahálsmen (charm pendant), einnig nefnt „kraftaverkahálsmen“ (miraculous medal) og því mögulega verið hugsað eigandanum til gæfu og heilla á erfiðum tímum á fjarlægum slóðum.

Önnur hlið mensins sýnir Maríu mey með Jesúbarnið í fanginu, stjörnur við höfuð þeirra og geisla sem frá þeim berast. Undir þeim mæðginum er kross, tákn Krists og bókastafurinn M, tákn Maríu. Krossinn og bókstafurinn eru tvinnaðir saman sem tákn um sameiningu þeirra tveggja. Þar undir eru tvö lítil hjörtu, annað umvafið þyrnikórónu sem tákn um hjarta Jesú Krists en hitt með sverð í hjartastað, tákn um kraft kærleikans, hið flekklausa hjarta Maríu sem stungið var rýtingi. Upp af hjörtunum loga eldar. Þeir standa fyrir brennandi kærleika sem Jesús og María bera til allra manna. Í kringum þetta allt hringsóla tólf stjörnur. Þær tákna postulana og kirkjuna.

Hinum megin sést María mey standa á stalli með beygt höfuð og handleggi frá líkama. Í hringnum sem umlykur hana er áletrað „Ó María, getin án syndar, biðjið fyrir okkur sem höfum leitað til ykkar. “ Hendur hennar varpa geislum til jarðar sem minna okkur á að með fyrirbæn Maríu sendir hún náð Guðs til heimsins. Yfir Maríu gnæfir fullorðinn Jesús, sömuleiðis umlukinn hring með hendur á lofti og ljósgeisla yfir höfði sér.

Við nánari rannsóknir á meninu kom í ljós að það er af tiltekinni gerð kraftaverkahálsmena, svokallað Scapular-hálsmen. Greina má Scapular-hálsmen frá öðrum sambærilegum hálsmenum m.a. út frá fjölda tákna sem þau bera sbr. upptalninguna hér að ofan. Sagan segir að María hafi birst leiðtoga Karmelreglunnar árið 1251 og afhent honum „Brown Scapular” sem eru heilög klæði. Hálsmenið sem eitt sinn var í eigu setuliðsmanns á Akureyri táknar þessa gjöf Maríu. Börn sem fæðast inn í Karmelregluna fá hálsmenið og María er leiðarljós þeirra sem það bera. Scapular vísar til þess að tilheyra Maríu, loforð um móðurvernd hennar, ekki aðeins í lifanda lífi heldur og eftir dauðann. Ef marka má heimildir er Scapular-hálsmen eilífðareign sem skilur helst ekki við eiganda sinn fyrr en á dánarstundu.

Vísbendingar eru um að hönnun Scapular-hálsmensins megi rekja til Art Deco hönnunarstílsins og að menið hafi verið smíðað á fjórða áratugnum. Þó ótal afbrigði af kraftaverkahálsmenum séu í umferð, gömul og ný eins og myndir á veraldarvefnum gefa til kynna, virðist sem það eigi ekki við um Scapular-hálsmen eins og það sem Varðveislumenn fundu. Þó er vitað um eitt slíkt (brúnlitað hálsmenið til hægri á meðfylgjandi mynd). Það fannst grafið í jörðu á vettvangi orrustunnar um Hong Kong sem háð var í desember 1941 þar sem Japanir börðust m.a. við Breta og Kanadamenn.

Við munum líklega seint komast að því hver átti og bar litla kopargripinn og hvers vegna hann lenti þar sem Varðveislumenn fundu hann 80 árum síðar. Við getum aðeins leyft okkur að vona að hálsmenið hafi veitt eigandanum einhverja huggun þar sem hann dvaldist í smábæ á fjarlægri eyju langt frá fjölskyldu og vinum.

Fleiri myndir má finna á www.grenndargral.is.

Heimild: Grenndargralið.

Sambíó

UMMÆLI