NTC

Hvar búa jólasveinarnir eiginlega?Hægt er að hitta jólasveina sem þessa í Dimmuborgum. Það er hins vegar umdeilt hvort að Dimmuborgir séu hið sanna heimili þeirra. Ljósmynd fengin hjá Markaðsstofu Norðurlands.

Hvar búa jólasveinarnir eiginlega?

Öll þekkjum við jólasveinana þrettán. Einhverjar ráðgátur eru þó í kringum fjölskylduna, til dæmis tala sum jólalög um níu sveina og einhverjar vísur um önnur systkyni sem ekki séu jólasveinar (Leppur, Skreppur, Leiðindaskjóða og fleiri). Hins vegar virðast nær allir íslendingar nú sammála um fjölskylduna í megin atriðum: Sveinarnir eru þrettán, foreldrarnir eru Grýla og Leppalúði og þau eiga kött sem kallast Jólakötturinn sem býr með þeim í hellinum þeirra.

En stöldrum nú aðeins við. Hvar er hellirinn? Þessi spurning er ein sú allra umdeildasta í kringum jólin. Öll vitum við að jólasveinarnir séu til og flestir eru sammála um að hellirinn sé uppi í fjöllum, en sé nánar spurt kemur í ljós að mjög svo eru skiptar skoðanir hvað þetta varðar. Margir á höfuðborgarsvæðinu venjast því að sveinarnir búi í Esjunni en fréttaritari sjálfur hefur frá barnæsku talið þá búa í Sólarfjalli í Eyjafirði.

Þessi óvissa kallar á rannsóknarvinnu. Fréttaritari hefur undanfarnar vikur spurt fólk á förnum vegi, sent fyrirspurnir á leikskóla og lesið sér sjálfur til. Hér á eftir er listi af þeim ýmsu stöðum á Norðurlandi sem Norðlendingar, ungir sem aldnir, tala um sem hið sanna heimili jólasveinanna. Greinilegt er að það eina sem Norðlendingar geta nær allir verið sammála um er að þeir búi einhvers staðar norðan heiða.

Dimmuborgir

Ýmsum norðlenskum börnum, sérstaklega þeim sem alast upp í Mývatnssveit og nálægt, þykir sjálfsagt að jólasveinarnir búi í Dimmuborgum. Þetta er ekki fyrir algjöra tilviljun, enda virðast án efa búa þar nokkrir sveinar sem oft er hægt að hitta þar á vappi í kring um jólin. Þeir sem styðja kenninguna um Dimmuborgir sem heimili jólasveinanna halda því fram að Grýuhellir sé staddur í Lúdentsborgum, ekki svo langt frá, en þegar jólasveinarnir uxu úr grasi hafi þeir flutt í Dimmuborgir.

Hólabyrða

Hólabyrða er glæsilegt fjall í Hjaltadal í Skagafirði. Íbúar í Hjaltadal hafa lengi haldið því fram að í fjallinu leynist heimili jólasveinanna. Samkvæmt heimildum Kaffisins fer sú trú að einhverju leyti þverrandi en virðist þó enn eiga sína stuðningsmenn.

Hvanneyrarskál

Séu Siglfirðingar, sérstaklega þeir af yngri kynslóðinni, spurðir um heimili jólasveinanna, má búast við heldur einróma svari. Þar trúa börnin að sveinarnir búi í fjallinu sem trónir yfir bænum og að Grýluhelli sjálfan sé að finna í Hvanneyrarskál.

Kerling

Til eru ýmsar heimildir sem telja að jólasveinarnir búi í Kerlingu. Kerling er hæsta fjall á Tröllaskaga og auðvelt að ímynda sér að einhvers staðar á þessu mikla fjalli gæti lítið op inn í Grýluhelli legið í leyni allt fram á okkar daga.

Sólarfjall

Líkt og áður kemur fram ólst fréttaritari sjálfur upp við þá trú að jólasveinarnir byggju í Sólarfjalli í Eyjafirði. Svo virðist sem fleiri Eyfirðingar styðjist við þessa trú en hún var í það minnsta við lýði hjá sumum Hríseyingum um einhverra ára bil.

Tröllaskagi

Margar heimildir geta þess að Skagfirðingar utan Hjaltadals hafi talað um Tröllaskaga almennt sem heimili jólasveinanna. Tröllaskagi er að sjálfsögðu stórt svæði og mörg fjöll sem nefnd eru hér að ofan teljast til hans, svo líklega hafa Skagfirðingar aðeins hærri líkur á réttu giski en margir aðrir með því að kasta aðeins stærra neti.

„Rétt hjá mér“

Líkt og aðrar þjóðsögur sem erfitt er að staðfesta eru sögur um heimili jólasveinanna sérstaklega aðlaganlegar staðhátttum á hverjum stað. Sögurnar geta jafnvel breyst frá manneskju til manneskju. Þannig eru margir Norðlendingar sem standa staðfastir á því að jólasveinarnir búi í þeim klett eða fjalli sem er nálægt þeirra eigin sveitabæ. Í þessu samhengi hefur fréttaritari heyrt minnst á Kollufjall, Tungufjall, Blöndulíðarfjöll og fleiri staði. Aldrei er að vita nema einhver þessara sé rétt svar og við hin séum á kolrangri braut.

Í fjöllunum“

Loks ber að nefna að það er ekki óalgengt svar að segja jólasveinana búa hreinlega „í fjöllunum,“ án þess að skilgreina það neitt nánar. Eins og sjá má trúa flestir norðlendingar, að Mývetningum undanskildum, að eitthvert fjallið sé hið sanna heimili þeirra. Kannski er jafnvel rétt að láta það þar kyrrt liggja. Kannski er það einmitt óvissan um nákvæmlega hvar þeir búa sem gerir það svo dularfullt og spennandi þegar þeir koma til byggða.

Eðli málsins samkvæmt munu einhverjir staðir ekki koma fram í þessari umfjöllun og eru lesendur hvattir til þess að láta Kaffið vita af sínum eigin kenningum um heimili jólasveinanna og munum við reyna að uppfæra greinina eftir því sem upplýsingar berast.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó