
Frá vinstri: Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Eims og Jón Steindór Árnason, frá Íslenskum verðbréfum við heitan foss sem rennur úr Vaðlaheiðargöngum.
Efnt hefur verið til hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra með sérstakri áherslu á nýtingu heita vatnsins í Vaðlaheiðargöngum. Samkeppnin er almenn og er því öllum frjálst að koma sínum hugmyndum á framfæri.

Úr Vaðlaheiðargöngum
Verðlaunaféið er tvær milljónir króna. Þar af verða fyrstu verðlaun ekki lægri en ein og hálf milljón. Að auki munu Íslensk verðbréf bjóða sigurvegaranum aðstoð við tillögur um hugsanlegar leiðir til fjármögnunar, að meta og gera rekstraráætlun ásamt því að meta áætlaða fjárfestingarþörf og fleira í þeim dúr.
Komið hefur í ljós að hitastig vatnsins er nokkuð stöðugt, í kringum 46 gráður og renna 110 lítrar á sekúndu, ónýttir til sjávar eins og staðan er í dag. Er því um töluverða auðlind að ræða.

Lághitasvæði (merkt með litlum bláum punktum) eru víða á Norðurlandi eystra.
Hægt er að skila inn tillögum til 22.maí næstkomandi.
EIMUR, samstarfsverkefni sem snýr að bættri nýtingu orkuauðlinda og aukinni nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra, stendur á bak við keppnina í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng ehf.
Allar upplýsingar um keppnina má nálgast með því að smella hér.