NTC

Hvað viljum við unga fólkið raunverulega?

Berglind Ósk Guðmundsdóttir skrifar:

Ég hafði velt því fyrir mér lengi vel, hvernig ég gæti haft áhrif á það samfélag sem ég kýs að búa í. Þá tel ég mig vita að við unga fólkið viljum fjölbreytta atvinnumöguleika svo við veljum að búa hér til frambúðar. Öruggan leigumarkað og tækifæri til að kaupa eignir sem hannaðar eru með þarfir okkar unga fólksins í huga. Við vitum að það þarf að styðja betur við atvinnulífið, frumkvöðla og nýsköpun. Við þurfum aukna fræðslu á vinnumarkaðnum og fjármálalæsi í skólakerfið almennt. Þá vil ég lýsa stríði á hendur kvíða og þunglyndi, ástandið er óviðunnandi í dag og við þurfum að grípa mun fyrr til aðgerða.

Vill láta gott af sér leiða

Við búum svo vel að geta menntað okkur á öllum skólastigum hér í heimabyggð, við þurfum í raun aldrei að flytja úr bæjarfélaginu, sem er ótrúlega mikill kostur. Háskólinn er í mikilli sókn hér á svæðinu og er mjög heillandi kostur fyrir unga Akureyringa, til að mennta sig á sínu áhugasviði. Ég hef tekið þátt í að móta stefnu skólans fyrir næstu fimm árin og er þakklát að hafa fengið tækifæri til þess. Að sitja fyrir hönd rúmlega 2000 stúdenta í háskólaráði var mikil reynsla og gott veganesti fyrir framtíðina. Nú er þó komið að útskrift og ég mun ekki lengur hafa tækifæri til þess að hafa áhrif á gæði náms eða námsframboð lengur. Ég er hinsvegar mjög spennt fyrir því að fá að sitja hinum megin við borðið, að gera sveitarfélagið að aðlaðandi kost fyrir ungt fólk til búsetu, tryggja hér framúrskarandi þjónustu og aðstæður til þess að setjast hér að, byggja heimili og fjölskyldu. Það vil ég gera sem fulltrúi unga fólksins á Akureyri í bæjarstjórn. Ég gef kost á mér því ég vil láta gott af mér leiða og vil þjóna unga fólkinu á Akureyri betur. Persónulega myndi ég vilja sitja fundi ungmennaráðs reglulega til að heyra áherslur unga fólksins á Akureyri og leggja mig fram að starfa samkvæmt þeim, ef ég fengi sæti í bæjarstjórn.

Skiptir máli að mæta á kjörstað

Sjálf hef ég verulegar áhyggjur af kosningaþátttöku okkar unga fólksins. Það skiptir gríðarlega miklu máli að mæta á kjörstað á kjördag og kjósa. Þannig höfum við bein áhrif á það hverjir sitja í bílstjórasætinu næstu fjögur árin. Það eru svo ótal margir þættir í stjórnkerfi bæjarins sem snúa að okkur unga fólkinu, það er kominn tími á ungan fulltrúa í bæjarstjórn, og þess vegna hvet ég ykkur til að setja x við D þann 26. maí.

Berglindi í bæjarstjórn!

Sambíó

UMMÆLI