Páskarnir nálgast óðfluga og margir bíða eflaust spenntir eftir fríinu sem hátíðinni fylgir. Margir nýta sér þetta kærkomna frí til að gera sér dagamun og brjóta upp hversdagsleikann á einhvern hátt. Það ætti ekki að reynast Norðlendingum erfitt þetta árið en hér hefur ekkert verið til sparað á sviði lista og menningar og því úr nægu að velja fyrir komandi hátíð.
Til að auðvelda lesendum að velja sér afþreyingu um páskana er hér samantekt um hvað er í boði á Akureyri og nágrenni. Hafið í huga að eflaust er eitthvað sem vantar á listann, sökum þess að sennilega eru einhverjir sem eiga eftir að auglýsa einstaka viðburði þegar nær dregur páskum.
Miðvikudagur 28. mars
Græni Hatturinn kl. 22 – Hljómsveitin HAM
HAM þarf ekki að kynna fyrir Norðlendingum, þann 28. mars ætlar hljómsveitin að flytja sín háværustu lög, bæði af plötu sinni „SÖNGVAR UM HELVÍTI MANNANNA” sem kom út nú í vor í bland við gamla slagara. Margir tala um þessa nýjustu plötu sem bestu plötu HAM hingað til.
Fimmtudagur 29. mars – skírdagur
Græni Hatturinn kl. 21 – Bara flokkurinn
Baraflokkurinn vitjar upprunans og kafar djúpt inn í áratug áttunnar.
Einstakt tækifæri til að sjá og heyra Baraflokkinn á Græna Hattinum flytja öll helstu lög hljómsveitarinnar.
Menningarhúsið Hof kl. 16 – Mattheusarpassía Bachs
Mattheusarpassía Bachs, sem er stundum kölluð drottning allra tónverka, verður flutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammerkór Norðurlands, Hymnodiu, Stúlknakór Akureyrarkirkju og einsöngvurum í dymbilvikunni.
Föstudagur 30. mars – Föstudagurinn langi
Svalbarðskirkja í Laufási kl. 11 – Föstuganga í Laufásprestakalli
Hin árlega föstuganga (ganga með Kristi) verður haldin í Laufásprestakalli og það í 8. skiptið síðan árið 2010. Gengið verður frá þrem stöðum í prestakallinu í Laufás. Lagt verður af stað kl. 11.00 frá Svalbarðskirkju í Laufás (16 km) Björgunarsveitin Týr á Svalbarðsströnd vaktar gönguna. Lagt verður af stað kl. 11.00 frá Végeirsstöðum í Fnjóskadal (16 km) í Laufás. Björgunarsveitin Þingey í Þingeyjarsveit vaktar gönguna. Lagt verður af stað kl. 12.00 frá Grenivíkurkirkju (9 km) í Laufás. Björgunarsveitin Ægir Grenivík vaktar gönguna. Fólki er vitanlega frjálst að koma inn í göngurnar hvar sem er. Hver ganga hefst á orði og bæn. Mikilvægt er að hafa með sér nóg af vatni og góða skó fyrir gönguna. Í þjónustuhúsinu í Laufási verður hægt að kaupa sér súpu og aðrar veitingar við komu og verður veitingasala í umsjá veitingastaðarins Kontórsins á Grenivík. Tónleikar verða í Laufáskirkju kl. 14.30. Þeir Gunnar Björn Jónsson og Þorkell Pálsson syngja við undirleik Petru Bjarkar Pálsdóttur. Aðgangur er ókeypis. Það er sannarlega notalegt að láta líða úr sér í fallegri Laufáskirkju og hlýða á ljúfa tóna eftir hressandi göngu. Verið öll hjartanlega velkomin og gleðilega páskahátíð!
Menningarhúsið Hof kl. 18 – Mattheusarpassía Bachs
Mattheusarpassía Bachs, sem er stundum kölluð drottning allra tónverka, verður flutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Kammerkór Norðurlands, Hymnodiu, Stúlknakór Akureyrarkirkju og einsöngvurum í dymbilvikunni.
Græni Hatturinn kl. 20 – Uppistand Sóla Hólm
Sóli hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Eftir að hafa þurft frá að hverfa um nokkurra mánaða skeið vegna veikinda snýr hann aftur með splunkunýtt uppistand, tilbúinn að draga sjálfan sig og aðra sundur og saman í háði. Sóli er maður margra radda og má búast við að þjóðþekktir einstaklingar fylgi honum í einhverri mynd upp á svið á Græna.
Hótel KEA kl. 22 – Tónleikar Stebba og Eyfa.
Félagarnir fagna 26 ára samstarfsafmæli um þessar mundir og halda sína árlegu tónleika á Hótel KEA þar sem þeir munu flytja öll sín þekktustu lög sem þeir hafa sent frá sér í gegnum tíðina, saman og í sitthvoru lagi. Tvíeykið mun spjalla á léttum nótum við tónleikagesti og segja óborganlegar sögur úr bransanum.
Laugardagur 31. mars
Kaffi Rauðka, Siglufirðir kl. 21.30 – Tónleikar Stebba og Eyfa.
Félagarnir fagna 26 ára samstarfsafmæli um þessar mundir og halda sína árlegu tónleika á Hótel KEA þar sem þeir munu flytja öll sín þekktustu lög sem þeir hafa sent frá sér í gegnum tíðina, saman og í sitthvoru lagi. Tvíeykið mun spjalla á léttum nótum við tónleikagesti og segja óborganlegar sögur úr bransanum.
Græni Hatturinn kl. 22 – Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar
Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar eru annáluð fyrir lifandi flutning á lögum og textum Jónasar en hann hefur gefið út þrjár plötur og hafa fjölmörg lög hlotið verðskuldaða athygli og mörg þeirra ratað hátt á vinsældalista landsins.
Menningarhúsið Hof kl. 13 og 15 – Galdrakarlinn í Oz
Galdrakarlinn í Oz var frumsýndur af Leikhópnum Lottu í Elliðaárdalnum í maí 2008 og nú, tíu árum síðar, gengur hann í endurnýjun lífdaga.
Samkomuhúsið kl. 20 – Sjeikspír eins og hann leggur sig
37 leikrit á 97 mínútum með 3 leikurum, hvað getur farið úrskeiðis? Sjeikspír eins og hann leggur sig er gamanleikrit á heimsmælikvarða. Hið nýstofnaða Sjeikfélag Akureyrar hefur meira af kappi en listrænu innsæi, eða staðgóðri þekkingu á verkum og ævi William Shakespeare, ákveðið að flytja öll verk skáldsins, 37 talsins, á 97 mínútum. Það er næsta víst að allt gengur ekki eins og það á að ganga og niðurstaðan eru hlátursprengjur og frussandi fyndin kvöldstund með tónlist og gleði.
Sunnudagur 1. apríl – páskadagur
Græni Hatturinn kl. 22 – Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar
Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar eru annáluð fyrir lifandi flutning á lögum og textum Jónasar en hann hefur gefið út þrjár plötur og hafa fjölmörg lög hlotið verðskuldaða athygli og mörg þeirra ratað hátt á vinsældalista landsins.
Listir og menning
Ketilhúsið hýsir sýningarnar Rof, í sal 10 og Sköpun bernskunnar, í sal 11.
Rof
„Ég hef lengi velt fyrir mér leiðtogaþörf mannsins og birtingarmyndum valds í samfélaginu. Verkin á sýningunni eru tilraun til að leysa upp þessar birtingarmyndir og eru ákveðin tilfærsla á viðfangsefninu. Slíkt er gert með uppbyggingu og niðurrifi, umsnúningi eða vendingu í ferli málverksins. Myndflöturinn verður nokkurs konar átakasvæði þar sem heildin er rofin. Formið víkur fyrir formleysi og nýjum, óskyldum áhrifum er safnað saman til þess að mynda aðra óskylda heild með annars konar frásögn. Frásögn sem fjallar ekki síður um, eða vísar til, atriða utan myndflatarins.“ Bergþór Morthens (f. 1979) lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri 2004 og MA námi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg 2015. Hann hefur haldið einkasýningar á Íslandi, í Rúmeníu og Svíþjóð og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Grikklandi, í Svíþjóð og Danmörku. Sýningarstjóri: Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.
Sköpun bernskunnar
Þetta er fimmta sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp til þess að örva skapandi starf og hugsun skólabarna á aldrinum tveggja til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru börn, starfandi listamenn og Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi. Sköpun bernskunnar er því samvinnuverkefni í stöðugri þróun og er hver og ein sýning sjálfstæð og sérstök. Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og var valin til þátttöku í Barnamenningarhátíð mennta- og menningarmálaráðuneytisins 2017. Þemað að þessu sinni er tröll í víðum skilningi sem vísar í þjóðsögur Íslendinga. Á sýningunni mætast þátttakendur og eiga listrænt samtal við sýningargesti. Þátttakendur að þessu sinni eru Georg Óskar, Ninna Þórarinsdóttir, Sigga Björg Sigurðardóttir, Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi, Grímseyjarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og leikskólarnir Iðavöllur og Krógaból. Sýningarstjóri er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir
Amtsbókasafnið – Bókamarkaður í mars!
Amtsbókasafnið stendur fyrir bókamarkaði allan marsmánuð þar sem fólki gefst kostur á að gefa frá sér gamalt og gott efni sem þráir nýja notendur.
Minjasafnið – Verður opið um páskahelgina. Nánar um opnunartíma á heimasíðu safnsins.
Norðurslóðasetrið – Verður opið um páskahelgina. Nánar um opnunartíma á heimasíðu safnsins.
Útivera og afþreying
30. mars – föstudagurinn langi: Skautadiskó í Skautahöllinni kl. 21
30. mars – föstudagurinn langi: Skíðarútan fer upp í fjall kl. 12 og 14 og úr fjallinu kl. 15 og 19.
1. apríl – páskadagur: Skíðarútan fer upp í fjall kl. 09 og 12 og úr fjallinu kl. 13, 15 og 16.
Skautahöllin: Er opin laugardag og páskadag frá kl. 13-17.
Hlíðarfjall: Er opið frá kl. 9-16 alla páskana. Mánudaginn 2. apríl er opið frá kl. 10-16.
Sundlaug Akureyrar: Skírdag, föstudaginn langa, laugardag og páskadag opið frá kl. 9-19. Annan í páskum er opið frá kl. 9-18.30.
Glerárlaug: Skírdag og laugardag opið frá kl. 9-14.30, lokað föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum.
Sundlaug Þelamerkur: Er opin frá kl. 11-18 alla páskana.
Sundlaug Hrafnagils: Skírdag er opið frá kl. 10-20, föstudaginn langa, laugardag og páskadag er opið frá kl. 10-18. Annan í páskum er opið frá kl. 10-20.
UMMÆLI